• þri. 10. sep. 2013
  • Landslið

Þrjú stig og stemning í Laugardalnum

Áhorfendur á Laugardalsvelli
ae6cf50d-daf1-41be-ba50-df1d48effc08_L

Sigursöngvar ómuðu í Laugardalnum í kvöld þegar 9.768 áhorfendur fögnuðu dýrmætum sigri Íslands á Albaníu í kvöld.  Lokatölur urðu 2 - 1 fyrir okkar menn en staðan var jöfn í leikhléi, 1 - 1.

Íslenska liðið byrjaði leikinn af sóknarkrafti og það var því eins og blaut tuska í andlitið þegar Albanir skoruðu í sinni fyrstu sókn með góðu skoti frá vítateig.  Okkar menn héldu þó ótrauðir áfram og jöfnuðu metin aðeins fimm mínútum síðar.  Birkir Bjarnason setti þá boltann í markið af stuttu færi eftir góða sókn og fyrirgjöf frá Birki Má Sævarssyni.  Íslenska liðið var mun meira með boltann í fyrri hálfleiknum og t.a.m. fékk Eiður Smári Guðjohnsen dauðafæri en markmaður Albana sá við honum.

Jafnt í leikhléi en margir áhorfendur voru ennþá að komast í sætin sín í seinni hálfleiknum þegar íslenska liðið hafði tekið forystu.  Kolbeinn Sigþórsson skoraði þá með laglegri hælspyrnu og aftur var það fyrirgjöf frá Birki Má Sævarssyni sem skóp markið.  Seinni hálfleikur var jafnari en sá fyrri en íslenska liðið hafði samt em áður undirtökin.  Albanir sóttu nokkuð undir lok leiksins án þess að skapa sér nein færi og var varnarleikur liðsins til fyrimyndar.

Mörg hjörtun voru farin að slá hraðar undir lok leiksins en gríðarlegur fögnuðu braust út þegar dómarinn Andre Marriner flautaði til leiksloka.  Íslenska liðið er nú í öðru sæti riðilsins með 13 stig en Sviss, sem lagði Noreg í kvöld, er í efsta sætinu með 18 stig.  Baráttan um annað sætið er gríðarlega hörð en Slóvenar, sem lögðu Kýpur í kvöld, eru í þriðja sæti með 12 stig.  Noregur er svo með 11 stig og Albanía með 10 stig.

Þessi úrslit gera næsta leik gegn Kýpur enn mikilvægari.  Sá leikur, sem er síðasti heimaleikur Íslands í riðlakeppninni, fer fram á Laugardalsvelli, föstudaginn 11. október.  Lokaleikur Íslands í riðlinum er svo gegn Norðmönnum ytra, þriðjudaginn 15. október.

Vert er að nefna frábæran stuðning áhorfenda í Laugardalnum í kvöld, frábær stemning frá upphafi og sló ekkert af þó svo að gestirnir kæmust yfir.  Frábær stemning sem gaman verður að endurtaka 11. október.

Staðan í riðlinum