• fös. 06. sep. 2013
  • Landslið

Ótrúleg endurkoma í Bern

Jóhann Berg Guðmundsson
Johann-Berg

Íslendingar gerðu magnað jafntefli við Sviss í undankeppni HM í kvöld en leikið var í Bern.  Lokatölur hreint ötrúlegar, 4 - 4 og leiddu heimamenn í leikhléi, 3 - 1.

Íslendingar fengu sannkallaða óskabyrjun þegar Jóhann Berg Guðmundsson skoraði strax á þriðju mínútu.  Glæsilegt mark eftir virkilega góða sókn og sendingu frá Gylfa Þór Sigurðssyni.  Mikill kraftur í íslenska liðinu í byrjun en heimamenn jöfnuðu metin á 15. mínútu.  Þeir bættu svo við tveimur mörkum til viðbótar á þriggja mínútna kafla, á 27. og 30. mínútu, og átti íslenska liðið erfitt uppdráttar á þessum kafla.  Þannig var staðan þegar flautað var til leikhlés og eftir níu mínútur í síðari hálfleik bættu heimamenn fjórða markinu við, úr vítaspyrnu, og útlitið orðið heldur dökkt.

Þá tók við einhver ótrúlegasta endurkoma sem allavega sá sem þetta skrifar, hefur orðið vitni af.  Hún hófst strax í næstu sókn eftir fjórða mark Sviss, Kolbeinn Sigþórsson minnkaði þá muninn í tvö mörk með miklu harðfylgi.  Það liðu svo 10 mínútur og þá skoraði Jóhann Berg Guðmundsson frábært mark eftir enn betri sókn.  Staðan orðin 4 - 3 og um 25 mínútur eftir af leiknum.

Liðin skiptust á að sækja og t.a.m. fékk Gylfi frábært færi þegar 15 mínútur lifðu leiks en markvörður gestgjafanna bjargaði glæsilega.  En þrátt fyrir að fyrstu tvo mörk Jóhanns Bergs hafi verið glæsileg, þá geymdi hann það besta þangað til síðast.  Þegar uppbótartími rann upp þá sneri Jóhann Berg boltann upp í fjærhornið og mögnuð endurkoma íslenska liðsins staðreynd.

Frábær úrslit gegn mjög góðu liði heimamanna sem hafði aðeins fengið á sig eitt mark, fyrir þennan leik, í keppninni.  Sviss er enn í efsta sæti riðilsins með 15 stig en Noregur er nú komið í annað sætið eftir að hafa lagt Kýpur á heimavelli, 2 - 0.  Albanía og Ísland hafa jafnmörg stig, 10 stig, en Albanir sitja í þriðja sætinu á markahlutfalli þar sem munar einu marki.  Slóvenar eru svo í fjórða sætinu með níu stig, eftir 1 - 0 sigur á Albaníu.  Baráttan er því gríðarlega hörð í riðlinum og mikið undir þegar Albanía sækir okkur  heim á þriðjudaginn á Laugardalsvelli.

Miðasala er í fullum gangi á þann leik og eru knattspyrnuáhugamenn hvattir til þess að tryggja sér miða sem fyrst.