Hver skoraði sigurmark Íslands gegn Færeyjum?
Hvort var það Birkir Bjarnason eða Kolbeinn Sigþórsson sem skoraði sigurmark Íslands í vináttuleiknum gegn Færeyjum á miðvikudagskvöld? Á hvorn á að skrá markið? Reglurnar um þetta tiltekna atvik eru skýrar - síðasti leikmaður sóknarliðsins til að snerta knöttinn skal skráður fyrir markinu. Birkir Bjarnason skaut að marki og á leið sinni í netið hafði knötturinn viðkomu í Kolbeini. Því er ljóst að Kolbeinn Sigþórsson á markið og hefur hann því skorað 9 mörk í 15 A-landsleikjum. Engu máli skiptir hvort snerting Kolbeins var viljandi eða óviljandi.
Hvern skal skrá fyrir marki? - Úr vinnureglum dómara
Grundvallarreglan er sú að leikmaður er skráður sem markaskorari, ef hann er síðastur í sínu liði til að snerta knöttinn áður en hann fer yfir marklínu mótherja.