• mið. 14. ágú. 2013
  • Landslið

Eins marks sigur á Færeyjum

DAN_3060
DAN_3060

A landslið karla vann í kvöld, miðvikudagskvöld, 1-0 sigur á Færeyingum í vináttulandsleik á Laugardalsvellinum, að viðstöddum 4.815 áhorfendum.  Íslenska liðið réði lögum og lofum í leiknum og sigurinn hefði verið mun stærri ef ekki hefðu nokkur úrvals marktækifæri farið í súginn.  Kolbeinn Sigþórsson skoraði eina mark leiksins á 65. mínútu eftir góða sendingu frá Eiði Smára Guðjohnsen og skot frá Birki Bjarnasyni sem hafði viðkomu í Kolbeini á leið sinni í markið.

Leikurinn byrjaði fjörlega og góður skalli Birkis Bjarnasonar var varinn af Gunnari Nielsen í færeyska markinu, en hann stóð í ströngu allan leikinn og var besti maður færeyska liðsins.  Alfreð Finnbogason fékk tvö góð færi til að skora í fyrri hálfleik, en ekki kom markið þrátt fyrir nokkrar góðar fyrirgjafir og staðan markalaus í hálfleik.

Fjórar breytingar voru gerðar í hálfleik og íslenska liðið keyrði hraðann upp.  Kolbeinn Sigþórsson skoraði sem fyrr segir eina mark leiksins.  Sóknarleikur íslenska  liðsins var glimrandi á köflum, mörg færi, en ekki gekk að koma boltanum aftur í netið.  Jóhann Berg Guðmundsson og Kolbeinn Sigþórsson komust báðir einir í gegn með einungis markmanninn Gunnar Nielsen eftir, en skutu báðir yfir færeyska markið.

DAN_2884Um það verður ekki deilt að íslenska liðið hafði mikla yfirburði í leiknum og átti sigurinn fyllilega skilinn.  Þjálfarinn Lars Lagerbäck játaði það þó á blaðamannafundi eftir leikinn að hann hefði viljað sjá liðið uppskera fleiri mörk, miðað við svona mörg marktækifæri, en tók jafnframt fram að hann vonaðist eftir því að leikmenn hans ættu mörkin inni – að þau kæmu þá á móti Sviss og Albaníu í staðinn.  Lars var annars ánægður með frammistöðuna og undirbúninginn fyrir komandi leiki í september í  undankeppni HM 2014.