U21 karla mætir Hvít-Rússum á Vodafone-velli á miðvikudag
U21 landslið karla mætir Hvít-Rússum á Vodafone-vellinum á miðvikudag kl. 17:00. Leikurinn er liður í undankeppni EM 2015 og með sigri getur íslenska liðið tekið stórt skref í riðlinum. Ísland er sem stendur með fullt hús stiga eftir tvo útileiki og ásamt leiknum við Hvít-Rússa á liðið heimaleiki í haust, fyrst gegn Kasakstan í september og svo gegn Frökkum í október. Búast má við að Frakkar safni stigum í riðlinum, en þeir hafa þó ekki enn hafið leik.
Fyrsti leikur Íslands í riðlinum var einmitt á móti Hvíta-Rússlandi ytra og þar vannst 1-2 sigur. Hvít-rússneska liðið er sterkt þó það sé án stiga eftir tvo leiki og það má alls ekki vanmeta.
Leikurinn fer sem fyrr segir fram á Vodafone-vellinum að Hlíðarenda og hefst kl. 17:00. Miðaverði er stillt í hóf, kr. 1.000 fyrir 17 ára og eldri og ókeypis aðgangur fyrir þá sem eru 16 ára og yngri.