Frábær 5-2 sigur hjá U17 karla
U17 landslið karla vann frábæran 5-2 sigur á liði Norðmanna í leik um 3. sætið á Opna Norðurlandamótinu, en norska liðið var á heimavelli. Leikurinn um 3. sætið fór fram á laugardag á Fart Stadion í Övre Vang. Finnar urðu Norðurlandameistarar.
Leikurinn fór rólega af stað en um miðjan fyrri hálfleik fór markaskorun á flug. Fyrst skoraði Albert Guðmundsson á 20. mínútu, en Norðmenn jöfnuðu aðeins tveimur mínútum síðar. Íslenska liðið náði svo tveggja marka forystu með mörkum á 29. og 30. mínútu, fyrst skoraði Ragnar Már Lárusson og svo Sindri Scheving. Tveggja marka forysta í hálfleik og Ísland með leikinn í höndunum. Klaufalegt sjálfsmark okkar drengja á 48. mínútu opnaði leikinn um stund og heimamenn eygðu von, en mark Ólafs Hrafns Kjartanssonar á 67. mínútu sló á þær vonir. Ernir Bjarnason gerði svo endanlega út um leikinn á lokamínútunni og gulltryggði 5-2 sigur íslenska liðsins. Frábær árangur hjá þessum efnilegu drengjum.
Finnar fögnuðu Norðurlandameistaratitli eftir úrslitaleikinn við Dani. Staðan að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu var 1-1. Í vítaspyrnukeppninni náði Danir að skora einu sinni, en Finnar tvisvar, sem dugði til sigurs.