Bikarúrslitaráðstefnan 2013
Í tengslum við úrslitaleikinn í Borgunarbikar karla mun Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands í samstarfi við Knattspyrnusamband Íslands standa fyrir ráðstefnu.
Úrslitaleikur Borgunarbikarkeppni karla fer fram laugardaginn 17. ágúst kl. 16:00 en þar mætast Fram og Stjarnan. Ráðstefnan hefst kl. 09:20 og er öllum opin. Þátttökugjald er 3.500 krónur fyrir félagsmenn KÞÍ en 5.000 krónur fyrir aðra. Miði á úrslitaleikinn og léttar veitingar eru innifaldar í verðinu. Skráning er hafin með tölvupósti á netfangið kthi@kthi.is eða dagur@ksi.is - taka þarf fram nafn og kennitölu. Greiðsla fer fram við innganginn.
Aðalfyrirlesari er Daninn Flemming Serritslev en hann starfar sem tæknilegur ráðgjafi á vegum UEFA. Flemming mun fjalla um það hvernig við skynjum það hvað eru hæfileikar hjá leikmönnum, hvaða hluti við kíkjum á, ættum að kíkja á og getum kíkt á þegar við leitum að efnilegum leikmönnum og það hvernig við setjum hæfileika/eiginleika í samhengi þegar út í leik eða æfingu er komið.
Flemming hefur komið víða við á sínum langa ferli sem þjálfari. Hann starfaði m.a. sem aðstoðarlandsliðsþjálfari Dana frá 1992-2000, þjálfaði U21 árs lið Danmerkur frá 2000-2006 ásamt því að vera yfirmaður hæfileikamótunar hjá danska knattspyrnusambandinu á sama tíma. Flemming hefur þjálfað þrjú félög í dönsku úrvalsdeildinni, þjálfað félagslið í Nígeríu, Íran og U21 árs landslið Armeníu svo eitthvað sé nefnt. Árið 2005 var Flemming útnefndur þjálfari ársins í Danmörku þar sem þjálfarar í öllum íþróttagreinum komu til greina. Flemming er með UEFA Pro þjálfaragráðu og er yfirmaður UEFA Pro þjálfaranámskeiðsins í Armeníu. Hann hefur starfað sem fyrirlesari á vegum UEFA frá árinu 2000.
Dagskrá, laugardaginn 17. ágúst:
9:20 Ávarp formanns KÞÍ - Sigurður Þórir Þorsteinsson
9:25 Ávarp formanns fræðslunefndar KSÍ - Ragnhildur Skúladóttir
9:30 Einelti í fótbolta / Hagnýt ráð fyrir þjálfara - Vanda Sigurgeirsdóttir
10:10 Talent identification- perception and relational abilities -
Flemming Serritslev (Bóklegt)
11:30 Matarhlé
12:30 Talent identification- perception and relational abilities -
Flemming Serritslev (Verklegt)
14:00 Liðin í úrslitaleik karla - spáð í spilin
14:30 Þjálfari Fram
14:45 Þjálfari Stjörnunnar
15:00 Ráðstefnuslit
Ráðstefnustjóri: Arnar Bill Gunnarsson
Þátttaka á ráðstefnunni gildir sem 6 tímar í endurmenntun KSÍ A (UEFA A) og KSÍ B (UEFA B) þjálfara.