• mán. 05. ágú. 2013
  • Landslið

U17 kvenna - Jafntefli gegn Ungverjum

U17 kvenna í Moldavíu
islanda

Stelpurnar í U17 gerðu jafntefli við Ungverja í síðasta leik sínum í undankeppni EM en leikið var í Moldavíu.  Lokatölur urðu 2 - 2 og lenti Ísland því í öðru sæti riðilsins þar sem ungverska liðið var með betri markatölu þegar uppi var staðið en báðar þjóðirnar hlutu 7 stig og sæti í milliriðlum.

Tómas Þórodsson sendi okkur eftirfarandi umfjöllun um leikinn:

Íslenska U17 ára landslið kvenna tók á móti Ungverjalandi í hreinum úrslitaleik um 1. sætið í undanriðli Evropumótsins. Fyrir leikinn voru bæði lið búin að tryggja sér þátttökurétt í milliriðlum og því ljóst að um hörkuleik yrði að ræða.

Byrjunarlið Íslands var skipað eftirtöldum leikmönnum: Hafdís Erla, Tanja Líf, Bergrós Lilja, Eva Bergrín, Arna Dís, Lillý Rut, María Eva, Ingibjörg, Hulda Hrund, Sigríður María og Esther Rós sem var fyrirliði.

Byrjuðum mjög vel, tvær hörku sóknir. Hinumegin greip svo Hafdís vel inní góða fyrrgjöf. Eftir 10 min átti Sigríður ágætis skot sem var varið. Lillý stöðvaði svo álitlega skyndisókn Ungverja með góðri tæklingu. Esther Rós slapp svo ein í gegn eftir fallega sendingu frá Sigríði, en varnarmaður náði að bægja hættunni frá á síðustu stundu.

Esther slapp svo aftur í gegn og nú eftir sendingu frá Ingibjörgu, en markmaðurinn varði í horn. Hinumegin bjargaði Bergrós Lilja vel. Strax í næstu sókn Íslendinga fengu þær horn og átti  María Eva gott skot í slá. Þegar 25 min voru liðnar af leiknum átti Lillý flott skot rétt framhjá eftir góða sókn. Eva Bergrín las svo leikinn vel og bjargaði áður en ungverjar komust í gott færi. Ungverjar komust svo einar í gegn en Hafdís varði frábærlega í tvígang.

Eftir enn eitt horn Íslendinga björguðu Ungverjar á línu. Ungverjar áttu síðan sláarskot. Stuttu seinna flautaði rússneski dómarinn til leikhlés. Íslendingar voru betri en þær ungversku áttu einnig sín færi.

Strax í upphafi seinni átti Lillý góða sendingu inn fyrir á Esther Rós, hún kom með flotta sendingu fyrir og Sigríður var óheppinn að skot hennar fór rétt framhjá. Lillý átti svo gott skot úr aukaspyrnu sem markmaðurinn varði, Ingibjörg fylgdi á eftir og skaut yfir. Hafdís varði svo í tvígang mjög vel frá Ungverjunum.

Hulda Ósk kom svo inn fyrir Ingibjörgu. Í næstu sókn átti María Eva góða sendingu inn á Esther Rós, hún kom með flottan bolta fyrir og þar var varamaðurinn Hulda Ósk mætt og skoraði af yfirvegun.

Ungverjar voru ekki lengi að jafna eftir einbeitingarskort í vítateig Íslendinga og staðan orðin 1-1. Esther Rós átt síðan fína sendingu fyrir sem markmaður varði.

Stuttu seinna laumaði Hulda Ósk boltanum snyrtileg inn á Sigríði sem kláraði færið virkilega vel og kom Íslandi yfir 2-1. Í næstu sókn slapp Esther Rós ein í gegn en varnarmaður komst að lokum fyrir skotið. Andrea Mist kom svo inn fyrir Huldu Hrund.

Sigríður var svo við það að sleppa ein í gegn eftir góða sendingu frá Andreu, en Ungverjar björguðu vel. Ungverjar jöfnu svo aftur eftir einbeitingarleysi í vörn Íslands. Í næstu sókn átti Esther ágætis skot sem var varið. Eftir góðan sprett frá Huldu Ósk skaut Sigríður yfir af góðu færi. Mínútu seinna, í uppbótartíma átti Lillý góða sendingu á Huldu Ósk hún gaf fyrir en markvörður ungverja varði skot Andreu frá vítapunkti.

Dómari leiksins flautaði síðann leikinn leikinn af stuttu síðar og Ungverjar tryggðu sér því 1. sæti á markatölu.