• þri. 30. júl. 2013
  • Landslið

U17 kvenna - Öruggur sigur á Lettum

U17 kvenna í Moldavíu
islanda

Stelpurnar í U17 hófu í dag leik í undankeppni EM en riðill þeirra er leikinn í Moldavíu.  Mótherjar dagsins voru Lettar og höfðu okkar stúlkur öruggan sigur, 5 - 0.

Staðan í leikhléi var 3 - 0 fyrir Ísland og skoraði Esther Rós Arnarsdóttir tvo fyrstu mörkin en Ingibjörg Sigurðardóttir bætti því þriðja við.  Íslenska liðið hafði mikla yfirburði í fyrri hálfleiknum og það sama var uppi á teningnum í þeim síðari en fyrirliðinn, Lillý Rut Hlynsdóttir, bætti fjórða markinu við áður en Ingibjörg skoraði sitt annað mark í leiknum og fimmta mark Íslendinga.

Öruggur sigur í höfn en næstu mótherjar Íslands eru heimastúlkur í Moldavíu en sá leikur fer fram á fimmtudaginn.  Þær lágu gegn Ungverjum í dag, 5 - 0 og eru því Ísland og Ungverjaland efst og jöfn í fyrsta sæti riðilsins.

Leikskýrsla

Tómas Þóroddsson sendi eftirfarandi umfjöllun um leikinn:

Byrjunarlið Íslands var skipað eftirtöldum leikmönnum:

Hafdís Erla Gunnarsdóttir, Arna Dís Arnþórsdóttir, Eva Bergrún Ólafsdóttir, Bergrós Lilja Jónsdóttir, Lillý Rut Hlynsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Andrea Mist Pálsdóttir, Hulda Ósk Jónsdóttir, Sigríður María Sigurðardóttir og Ester Rós Arnarsdóttir.

Fyrsta færið fékk Ísland eftir 3 mín. en þá átti Lillý skot yfir. Mínútu seinna átti Hulda Ósk skot rétt framhjá eftir góða sókn.

Hulda Ósk og Hulda Hrund spiluðu sig svo í gegn mínútu seinna og eftir góðan kross fyrir hjá Huldu Ósk kláraði Ester Rós færið virkilega vel og kom Íslandi yfir með skoti úr markteig.

Nokkrar fínar sóknir fylgdu í kjölfarið og átti Ingibjörg m.a. skot rétt framhjá. Arna Dís átti síðan góðan kross frá vinstri sem markmaður Letta bjargaði.

Ester Rós kom Ísland í 2-0 er hún slapp ein í gegn eftir frábæra sendingu frá Andreu. Ester Rós kláraði einnig færið sitt einstaklega vel en hún fór framhjá markverðinum áður en hún skoraði í autt markið. Stuttu eftir markið átti Arna Dís flott skot sem var vel varið og greinilegt að þriðja markið var í sjónmáli.

Eftir flottan undirbúning Huldu Óskar og sendingu fyrir kom Ingibjörg í seinni bylgjunni, tók eina á og skoraði gott mark og staðan orðin 3-0. Miklir yfirburðir voru hjá Íslendingum í leiknum og nokkuð víst að sigur væri í höfn. Lettar áttu þó einhverjar tilraunir, án þess þó að ógna markinu. Eftir eina slíka las Eva Bergrún leikinn vel og komst inn í sendingu.

Síðasta færi fyrri hálfleiks kom eftir að Hulda Ósk átti góðan sprett og sendingu fyrir sem Ester Rós skallaði rétt framhjá.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri, Íslendingar tóku öll völd frá fyrstu mínútu.

Fyrsta færið kom er Sigríður átti frábæra sendingu inn á Andreu Mist, en skot hennar var varið. Mínútu seinna varði markmaður Letta skot Sigríðar í horn og úr horninu skallaði Hulda Ósk rétt framhjá. Fjórða markið kom svo er Lillý tók boltan niður, setti hann fyrir sig og flott skott hennar endaði í markinu.

Úlfar þjálfari gerði svo þrjár skiptingar á stuttu tímabili: Arna Dís kom út og Díana Dögg inn. Bergrós út og Hrefna inn. Andrea út og Jasmin Erla inn.

Síðasta mark leiksins kom er Ingibjörg fékk boltann fyrir utan teig og í meðtökunni fór hún framhjá einni og negldi boltanum í netið og staðan því orðin 5-0.

Síðasta færi leiksins átti síðan Lillý en skot henn fór í slá. Öruggur sigur því í höfn, en næsti leikur liðsins verður gegn heimastúlkum frá Moldavíu. Sá leikur fer fram kl 15 að Íslenskum tíma, fimmtudaginn 1. ágúst.