• sun. 21. júl. 2013
  • Landslið

EM ævintýrið á enda

769811
769811
EM ævintýri A landsliðs kvenna er á enda eftir fjögurra marka ósigur gegn gestgjöfum Svía í Halmstad í dag, sunnudag, þar sem liðin mættust í 8-liða úrslitum.  Þrjú sænsk mörk á fyrstu 20 mínútunum gerðu í raun út um leikinn og var sigur Svía verðskuldaður.  Engu að síður getur íslenska liðið borið höfuðið hátt eftir þessa keppni, því það hefur skrifað nýjan kafla í íslenskri knattspyrnusögu.

Fyrsta mark Svía kom eftir aðeins þriggja mínútna leik.  Marie Hammarström fékk að vaða óáreitt upp völlinn og það nýtti hún sér með því að senda þrumufleyg framhjá Guðbjörgu Gunnarsdóttur í íslenska markinu. Josefine Öqvist bætti við öðru marki eftir skyndisókn á 14. mínútu og eftir aðra hraða sókn skoraði Lotta Schelin, þegar hún stakk sér fram fyrir íslensku vörnina og stýrði fyrirgjöf í netið.  Þriggja marka forysta Svíþjóðar í hálfleik.

Seinni hálfleikur var talsvert betri af hálfu íslenska liðsins, sem fékk þó ekki mörg færi, og eina markið kom frá Svíum.  Þar var að verki Lotta Schelin með sitt annað mark í leiknum, og aftur eftir fyrirgjöf inn á markteig íslenska liðsins.

Fjögurra mark tap var því staðreynd og Ísland úr leik á EM.  Á fjórða hundrað stuðningsmenn voru mættir á Örjans Vall leikvanginn til að styðja við bakið á stelpunum og stóðu þeir sig eins og hetjur í hvatningarhrópum og klöppum allan leikinn.

Úti er ævintýri … í bili. 

Framundan:  Næsti kafli.