• fim. 18. júl. 2013
  • Landslið

Svíar mótherjar Íslands í 8-liða úrslitum EM 2013

EM kvenna 2013
Host_2Col_OnWhite_Land_XL_HR
Riðlakeppni EM kvennalandsliða lauk nú í kvöld (fimmtudagskvöld) og fyrst þá varð ljóst hverjir yrðu mótherjar Íslands í 8-liða úrslitum.  Draga þurfti um hvort Danmörk eða Rússland myndi hreppa sæti í 8-liða úrslitum, og sá dráttur hafði áhrif á það hverjir yrðu mótherjar Íslendinga.  Svo fór að mótherjarnir verða gestgjafar Svía, sem hafa leikið afar vel það sem af er móti og unnu sannfærandi sigra á Finnum og Ítölum í A-riðli. 

Leikurinn fer fram á Örjans Vall leikvanginum í Halmstad á sunnudag og hefst kl. 13:00 að íslenskum tíma.  Leikurinn verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á RÚV og er óhætt að segja að þetta sé einn allra stærsti leikur íslenskrar knattspyrnusögu.  Örjans Vall tekur 7.500 manns í sæti og er nokkuð ljóst að uppselt verður á leikinn.  Íslendingar sem hafa áhuga á að kaupa miða á leikinn geta sent tölvupóst á ragga@ksi.is. 

Vefsíða KSÍ náði tali af Sigurði Ragnari, þjálfara íslenska liðsins.

769809

Var þetta niðurstaðan sem Sigurður Ragnar vildi? 

Já, ég vildi mæta sænska liðinu.  Svíar eru á heimavelli, gestgjafar í þessu móti, og stefna þeirra er klárlega á að vinna Evrópumeistaratitilinn á sænskri grundu.  Það verður fullur völlur, frábær stemmning og það er viðeigandi að það sé þannig, því þetta verður líklega einn allra stærsti knattspyrnuleikur sem íslenskt landslið hefur tekið þátt í.  Við erum tilbúnar í verkefnið og munum gera okkar allra besta.  Það verður að hafa í huga að þegar komið er í 8-liða úrslit á stórmóti eru allir mótherjarnir öflugir, en að mæta gestgjöfunum á þeirra heimavelli, það verður eitthvað alveg sérstakt og við hlökkum til leiksins. Margir af okkar leikmönnum eru að spila í Svíþjóð eða hafa spilað sem atvinnumenn í Svíþjóð svo það gerir leikinn sérstaklega spennandi fyrir okkur.

Hverjir eru möguleikar íslenska liðsins?

Við höfum auðvitað spilað við Svíþjóð í tvígang á þessu ári, töpuðum 6-1 í Algarve-bikarnum og svo 2-0 í Växjö í apríl.  Við höfum bara einu sinni unnið Svíþjóð svo við verðum litla liðið í þessari viðureign.  En það sem er svo heillandi við fótbolta er að það er alltaf möguleiki á sigri.  Það getur allt gerst þegar komið verður í 8-liða úrslitin, þó að fyrirfram séu Svíarnir mun sigurstranglegri.  Okkar vopn verða leikskipulag, barátta, vilji og íslenskur dugnaður.  Ef við gefum allt sem við eigum í leikinn og leikum agaðan leik eigum við möguleika á móti öllum þjóðum.