• mið. 17. júl. 2013
  • Landslið

Úrslitakeppni EM: 8 liða úrslit - Takk fyrir!

769536
769536

Íslenska kvennalandsliðið tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum úrslitakeppni EM.  Hollendingar voru lagðir að velli, 1 - 0 og áframhaldandi þátttökuréttur í keppninni tryggður.

Fyrri hálfleikur var gríðarlega fjörugur og eftir jafna byrjun hafði íslenska liðið undirtökin.  Bæði lið fengu sín færi, Hollendingar áttu t.a.m. skot í slá og Guðbjörg Gunnarsdóttir þurfti líka að vera vel á verði þegar hollenska liðið pressaði vel.  Hólmfríður Magnúsdóttir  átti svo skot í innanverða stöngina sem rann þvert fyrir markið en eina mark leiksins kom á 30. mínútu þegar Hallbera Guðný Gísladóttir  átti frábæra sendingu inn í vítateig þar sem Dagný Brynjarsdóttir kom á ferðinni og skallaði boltann neðst í markhornið.  Stuttu síðar fékk svo Margrét Lára Viðarsdóttir dauðafæri en hún skallaði yfir, aftur eftir frábæra fyrirgjöf frá Hallberu.  Íslenska liðið leiddi því með einu marki þegar rúmenski dómarinn flautaði til leikhlés.

Síðari hálfleikur var allt öðruvísi enn sá fyrri, hollenska liðið stjórnaði ferðinni en sköpuðu sér engin færi og flestum sóknum lauk með skotum utan af velli sem voru hættulítil.  Íslensku stelpurnar lágu aftarlega á vellinum og vörðust vel í hitanum í Växjö, vel studdar af fjölmörgum, háværum, sólbökuðum stuðningsmönnum.  Þegar leið að lokum leiksins jókst pressa hollenska liðsins til muna og áttu skot og fyrirgjafir þar sem Guðbjörg gerði vel að handsama.

Það voru óvænt úrslit í hinum leik dagsins í riðlinum en Noregur lagði þá Þýskaland með einu marki gegn engu.  Þetta þýðir að Noregur endaði í efsta sæti riðilsins og Þjóðverjar í öðru sætinu.

Íslendingar mæta þá Frökkum eða Svíum í 8-liða úrslitum en það skýrist eftir leiki morgundagsins þegar keppni lýkur í C-riðli.

Hólmfríður Magnúsdóttir fékk áminningu á síðustu sekúndum leiksins sem þýðir að hún verður í leikbanni í næsta leik.

Staðan í riðlinum