• þri. 16. júl. 2013
  • Landslið

Aðeins eitt lið öruggt áfram

769812
769812
Þrátt fyrir að 2/3 hlutar liðanna sem leika í úrslitakeppni EM kvennalandsliða komist upp úr riðlunum og í 8-liða úrslit er aðeins eitt lið með öruggt sæti þar eftir tvær umferðir.  Frakkar eru eina liðið sem hefur unnið tvo fyrstu leiki sína og eru þær frönsku því öruggar með sæti í 8-liða úrslitum.  Ísland verður að vinna sinn leik í þriðju umferð til að eiga möguleika.
 

Á vefsíðu UEFA er að finna samantekt á hinum ýmsu möguleikum:

http://www.uefa.com/womenseuro/news/newsid=1971854.html

Í A-riðli reiknuðu flestir með að Svíar myndu vinna alla sína leiki, en jafntefli við Dani í fyrsta leik gerði þann riðil galopinn.  Sú staða er því uppi núna að gestgjöfunum dugar jafntefli gegn Ítölum til að vinna riðilinn, en tap myndi jafnvel setja sænska liðið út úr keppninni, ef Danir vinna sinn leik og til þess kemur að draga verði um það hvaða lið í 3. sætum riðlanna fara áfram.  Þarna er hægt að velta ýmsu fyrir sér og ýmsar ólíkar stöður sem geta komið upp.

769783B-riðillinn er í raun um margt líkur A-riðli.  Þjóðverjum dugar jafntefli gegn Noregi til að vinna riðilinn, en tap hefur sömu þýðingu og fyrir Svía í A-riðli.  Ísland þarf alltaf að vinna sinn leik, gegn Hollendingum á miðvikudag, til að eiga möguleika.  Þá fer íslenska liðið í 4 stig og þar gæti sú staða komið upp að draga þurfi um hvaða lið fari áfram, þ.e. ef fleiri en tvö lið í 3. sæti riðlanna verða með jafn mörg stig.  Það má þó ekki gleyma því að Ísland gæti enn hafnað í 2. sæti riðilsins, ef sigur vinnst á Hollandi og Þjóðverjar vinna Norðmenn – auk þess sem markatalan í leikjunum myndi sveiflast okkur í hag.

Frakkar eru öruggir með efsta sætið í C-riðli og vita því hvert framhaldið verður hjá þeim, þ.e. hvar þeir leika, þó ekki liggi fyrir hverjir mótherjarnir verða.  Rússar og Englendingar eru í sömu stöðu og svo mörg önnur lið, geta komist í 4 stig með sigrum  í sínum leikjum og flækt enn stöðuna.  Spánverjum dugar jafntefli til að hafna fyrir ofan England, takist þeim ensku að vinna Frakkland í lokaumferðini.

Eina og sjá má er hvergi nærri ljóst hvaða lið fara áfram í 8-liða úrslitin og ljóst að menn verða á fullu að reikna út hina ýmsu möguleika með hverjum leiknum sem líður.  Það sem Ísland þarf að gera er að vinna Holland, og sjá svo til …

769804