Úrslitakeppni EM - Ísland mætir Þýskalandi í kvöld
Íslensku stelpurnar mæta Þjóðverjum í kvöld í öðrum leik sínum í úrslitakeppni EM. Leikið er í Växjö og hefst leikurinn kl. 18:30 að íslenskum tíma. Báðar þjóðirnar eru með eitt stig, eins og reyndar allar þjóðirnar í riðlinum.
Það má með sanni segja að Þjóðverjar hafi reynst íslensku stelpunum erfiður ljár í þúfu því Þjóðverjar hafa unnið allar 12 viðureignirnar til þessa. Síðast léku þjóðirnar á Algarve í febrúar 2012 og höfðu þær þýsku þá 1 - 0 sigur.
Noregur og Holland leika einnig í dag en sá leikur hefst kl. 16:00. Í gær var leikið í A-riðli og þar unnu gestgjafarnir í Svíþjóð, öruggan sigur á nágrönnum sínum Finnum, 5. - 0. Ítalir lögðu svo Dani, 2 - 1.
Leikur Íslands og Þýskalands verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu hjá RÚV og hefst útsending kl. 18:20. Leikur Noregs og Hollands verður einnig sýndur og hefst útsending þar kl. 15:50.