• fim. 11. júl. 2013
  • Landslið

Úrslitakeppni EM - Eitt stig í hús

EM kvenna 2013
Host_FullCol_OnBlack_Land_XL_LR

Bæði lið gengu nokkuð vonsvikin af velli þegar Ísland og Noregur gerðu jafntefli í dag í fyrsta leik B-riðils úrslitakeppni EM kvenna sem fram fer í Svíþjóð.  Lokatölur urðu 1 -1 eftir nokkuð kaflaskiptan leik þar sem Noregur leiddi í leikhléi en íslenska liðið jafnaði verðskuldað í síðari hálfleik.

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn þó svo að norska liðið hafi ógnað örlítið meira.   Þær norsku komust yfir á 27. mínútu með marki eftir háa og langa sendingu frá markverði sínum.  Nokkuð kjaftshögg því ekki hafði verið mikið í spilunum. 

Það er óhætt að segja að íslensku stelpurnar hafi brugðist vel við því þær voru töluvert betri aðilinn í síðari hálfleiknum og fengu nokkur mjög góð marktækifæri.  Það var þó ekki fyrr en á 87. mínútu að jöfnunarmarkið kom.  Sara Björk Gunnarsdóttir átti góðan sprett og höfðu norsku varnarmennirnir engan kost annan en að brjóta á henni svo að vítaspyrna var dæmd.  Það var Margrét Lára Viðarsdóttir sem að fór á punktinn og skoraði á yfirvegaðan hátt.  Jafntefli staðreynd þar sem bæði lið hefðu viljað innheimta sigur miðað við gang leiksins.

Í hinum leik kvöldsins í riðilnum gerðu Þjóðverjar og Hollendingar markalaust jafntefli og þar með hefur fjórum fyrstu leikjum mótsins lokið með jafntefli.  Á morgun eigast svo við liðin í C-riðli, Frakkar mæta Rússum og Englendingar leika við Spán.

Íslenska liðið er næst í eldlínunni þegar þær mæta Evrópumeisturum Þýskalands, sem hafa unnið þessa keppni síðustu fimm ár í röð og í síðustu sjö af átta skiptum sem keppnin hefur verið haldin.  Leikurinn fer fram sunnudaginn 14. júlí og hefst kl. 18:30 að íslenskum tíma.