Stærsta úrslitakeppni EM kvenna hingað til
Nú þegar hafa verið seldir á annað hundrað þúsund aðgöngumiðar á mótið, þar á meðal er uppselt á opnunarleik Svíþjóðar og Danmerkur, og útlit fyrir metsölu. Fjölmiðlar hér í Svíþjóð fjalla mjög mikið um EM 2013 og eru myndir frá undirbúningnum á forsíðum flestra blaða. UEFA hefur upplýst að umfjöllun í aðdraganda EM kvenna 2013 sé meiri en umfjöllun um EM U21 karla í Ísrael var á sama tímapunkti, þ.e. daginn fyrir fyrsta leik.
Ríflega 700 fulltrúar fjölmiðla hafa fengið aðgang að leikjum mótsins, fleiri en nokkru sinni áður, og er það fjölgun um 300 frá síðasta móti þegar síðasta met var sett.
Umfang sjónvarpsútsendinga hefur jafnframt aldrei verið meira. Á hverjum einasta leik verða 10 tökuvélar sjónvarps og á sjálfum úrslitaleiknum verða þær 11 talsins. Leikirnir verða í beinni útsendingu í sjónvarpsstöðum í átta löndum, auk þess sem Eurosport sýnir beint frá keppninni.
Land | Sjónvarpsstöð |
England | BBC |
Finnland | YLE |
Frakkland | M6/W9 |
Holland | NOS |
Ísland | RÚV |
Noregur | NRK |
Svíþjóð | TV4 |
Þýskaland | ARD/ZDF |
Eurosport - Alþjóðlegar útsendingar |
Allt gefur þetta til kynna þann vöxt sem er í kvennaknattspyrnu í Evrópu og sívaxandi vinsældir hennar. Öll umgjörð er sambærileg við önnur stórmót í knattspyrnu. Það er heitt í Svíþjóð þessa dagana og EM 2013 er svo sannarlega heitasta umræðuefnið.