• lau. 06. júl. 2013
  • Landslið

Opna Norðurlandamót U17 kvenna - Þjóðverjar sterkastir

Thyskaland-U17-kvenna
Thyskaland-U17-kvenna

Þjóðverjar sigruðu á Opna Norðurlandamótinu U17 kvenna sem fram fór hér á Íslandi dagana 1. - 6. júlí.  Þjóðverjar lögðu Dani örugglega í úrslitaleik, 3 - 0, á Laugardalsvelli í dag.  Finnar lentu í þriðja sæti.

Leikir dagsins:

Úrslitaleikur - Þýskaland - Danmörk

Þjóðverjar tryggðu sér í dag sigurinn á Opna Norðurlandamóti U17 kvenna en úrslitaleikurinn fór fram á Laugardalsvelli. Mótherjarnir voru Danir og lauk leiknum með 3 - 0 sigri þeirra þýsku.

Þjóðverjar voru sterkari aðilinn í leiknum og gáfu Dönum engin færi. Fyrsta mark leiksins kom á 14. mínútu þegar Kim Fellhauer skoraði með skalla eftir hornspyrnu. Þannig var staðan í leikhléi en Þjóðverjar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og bættu við tveimur mörkum. Það fyrra skoraði Saskia Meier á 51. mínútu og í því síðara var Nina Ehegötz á ferðinni sjö mínútum síðar.

Þær þýsku fögnuðu svo vel þegar Bríet Bragadóttir flautaði til leiksloka og Þjóðverjar verðskuldaðir sigurvegarar.

Leikur um 3. sæti - Finnland - Noregur

Finnar tryggðu sér þriðja sætið á dag á Opna U17 Norðurlandamóti kvenna þegar þær lögðu Noreg á KR velli. Lokatölur urðu 2 - 1 fyrir Finna sem leiddu í leikhléi, 2 - 0.

Leikurinn var jafn og fjörugur en Finnar skoruðu tvisvar á sjö mínútna kafla í fyrri hálfleik. Anita Abu var þar á ferðinni í bæði skiptin en hún skoraði á 29. og 36. mínútu leiksins. Seinni hálfleikurinn var einnig jafn en þá leit bara eitt mark dagsins ljós og það var norskt. Varamaðurinn Marie Dolvik Markussen skoraði þá á 64. mínútu en það dugði ekki og þær finnsku fögnuðu í leikslok.

Leikur um 5. sæti  - Holland - Svíþjóð

Svíar tryggðu sér 5. sætið á Opna Norðurlandamóti U17 kvenna í dag þegar þær lögðu Hollendinga á Víkingsvelli.

Þær sænsku byrjuðu leikinn betur og komust yfir á 10 mínútu þegar Anna Anvegard skoraði úr vítaspyrnu. Þær hollensku komust sem betur inn í leikinn þegar leið á hálfleikinn og jöfnuðu metin á síðustu andartökum fyrri hálfleiks. Síðari hálfleikurinn var svo jafn og liðin skiptust á að sækja. Svíar tryggðu sér svo sigur þegar markvörður Hollendinga sló boltann í eigið mark eftir hornspyrnu á 68. mínútu leiksins.

Leikur um 7. sæti - Ísland - England

Englendingar tryggðu sér sjöunda sætið á Opna Norðurlandamótinu U17 kvenna í dag þegar þær lögðu Íslendinga 2 - 0.

Þær ensku fengu óskabyrjun þegar Keira Walsh skoraði eftir aðeins 40 sekúndur með skoti af löngu færi. Íslenska liðið var smá tíma að ná áttum eftir markið en komst svo vel inn í leikinn og fengu tvö mjög góð marktækifæri til að jafna metin í fyrri hálfleiknum. Englendingar leiddu hinsvegar þegar gengið var til búningsherbergja en síðari hálfleikurinn þróaðist svipað og sá fyrri. Íslenska liðið réð ferðinni og sköpuðu sér allavega 2 mjög góð marktækifæri en það voru hinsvegar þær ensku sem sáu um markaskorunina. Rianna Dean skoraði annað mark þeirra á 80. mínútu eftir varnarmistök og þar við sat.

Í heildina ágætlega leikinn leikur hjá íslenska liðinu en það eru víst mörkin sem telja og þar höfðu Englendingar betur.
 
Myndir frá mótinu má finna á myndasíðu KSÍ.