• fim. 04. júl. 2013
  • Landslið

Opna NM U17 kvenna - Riðlakeppni lokið

England-Noregur á Opna NM U17 kvenna
nmu17kvenna2013-eng-nor-4

Í dag lauk riðlakeppni Opna Norðurlandamótsins hjá U17 kvenna en leikstaðir dagsins voru Fylkisvöllur og N1-völlurinn í Sandgerði.  Eftir leiki dagsins er ljóst að Þýskaland og Danmörk leika til úrslita.  Noregur og Finnland leika um 3. sætið.  Holland og Svíþjóð leika um 5. sætið og Ísland og England um 7. sætið.  Allir þessir leikir fara fram laugardaginn 6. júlí og hefjast kl. 11:00 að undanskildum úrslitaleiknum sem hefst kl. 13:30.

Leikir dagsins:

A riðill

Holland - Þýskaland 0 - 1

Þjóðverjar gulltryggðu í dag efsta sætið í A-riðli þegar þær báru sigurorð af Hollendingum en leikið var í Sandgerði. Lokatölur urðu 1 - 0 fyrir Þýskaland og kom markið undir lok leiksins. Þjóðverjar voru allt að því gulltryggðar með efsta sæti riðilsins fyrir leikinn en þurftu engu að síður eitt stig að sigla sætinu örugglega í land. Þær voru sterkari aðilinn allan leikinn en hollenska liðið varðist af krafti og gaf fá færi á sér. Þær hollensku reyndu svo að ógna þýska liðinu með skyndisóknum en náðu ekki að skapa sér nein umtalsverð marktækifæri. Það gerði þýska liðið varla heldur og færin því fá í leiknum en baráttan þeim mun meiri. Eitthvað varð þó undan að láta en sigurmarkið kom þegar fjórar mínútur lifði leiks. Það var Saskia Matheis sem kom boltanum í netið og stuttu síðar var flautað til leiksloka.

Þjóðverjar munu því leika til úrslita gegn Dönum á Laugardalsvelli, laugardaginn 6. júlí kl. 13:30.

Finnland - Ísland 1 - 0

Það er gömul saga og ný að það eru mörkin sem telja í knattspyrnu og það fékk íslenska liðið að reyna gegn Finnum í dag. Leikið var í Sandgerði og urðu lokatölur 1 - 0 fyrir Finna og kom eina mark leiksins í fyrri hálfleik.

Finnar komust yfir á 27. mínútu leiksins með marki frá Olgu Athinen. Íslenska liðið hafði verið sterkari aðilinn og fengið betri færi fram að þessu en inn vildi boltinn ekki. Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik en íslenska liðið réð ferðinni og skapaði sér fjölda góðra marktækifæra en inn vildi boltinn ekki. Finnar vörðust fimlega og fögnuðu því vel þegar flautað var til leiksloka og ljóst að Finnar hrepptu annað sæti riðilsins.

Finnar leika því gegn Norðmönnum um þriðja sætið á mótinu og fer sá leikur fram á KR-velli kl. 11:00 á laugardaginn. Íslenska liðið leikur hinsvegar um 7. sæti mótsins og verða Englendingar mótherjarnir. Sá leikur fer einnig fram laugardaginn, 6. júlí, kl. 11:00 og fer fram
á Valbjarnarvelli.

B riðill

Noregur - Danmörk 1 - 0

Norðmenn lögðu Dani í dag á Fylkisvelli, 1 - 0 í fjörugum leik. Markið kom á 22. mínútu og var hin öfluga Marie Dolvik Markussen þar á ferðinni. Norska liðið stjórnaði ferðinni í fyrri hálfleik og fékk góð færi til að bæta við en án árangurs. Danir gerðu 6 breytingar á liðinu í leikhléi og var seinni hálfleikurinn mun jafnari. Bæði lið fengu fín færi til að bæta við, þá sérstaklega Danir en lokatölur urðu 1 - 0 fyrir Noreg sem leikur því um þriðja sætið á laugardaginn. Danir leika hinsvegar til úrslita gegn Þjóðverjum á Laugardalsvelli.

Svíþjóð - England 4 - 1

Svíar lögðu Englendinga í dag en leikið var á Fylkisvelli við prýðis aðstæður. Lokatölur urðu 4 - 1 fyrir Svía sem leiddu í leikhléi, 2 - 1. Svíar byrjuðu af miklum krafti og Lisa Renlund kom þeim yfir strax á 5. mínútu. Ebba Handfast bætti svo við öðru marki á 9. mínútu með skalla eftir hornspyrnu. Mollie Rouse minnkaði muninn fyrir England á 16. mínútu og byrjun leiksins því æði fjörug. Ekki urðu mörkin fleiri í fyrri hálfleiknum en Ebba Handfast var aftur á ferðinni fyrir Svía á 47. mínútu og aftur var það með skalla eftir hornspyrnu. Sænska liðið bætti svo við síðasta marki leiksins á lokamínútu leiksins og þar við sat.

Svíar tryggðu sér það með 3. sæti riðilsins og mæta því Hollendingum í leik um 5. sæti á laugardaginn og fer leikurinn fram á Víkingsvelli kl. 11:00. Englendingar munu mæta Íslendingum í leik um 7. sætið og fer sá leikur fram á sama tíma en verður leikinn á Valbjarnarvelli.

Facebook síða mótsins