• þri. 02. júl. 2013
  • Landslið

Opna NM U17 kvenna:  Línur að skýrast

England-Noregur á Opna NM U17 kvenna
nmu17kvenna2013-eng-nor-4
Línurnar tóku heldur betur að skýrast í toppbaráttu riðlanna á Opna NM eftir leiki dagsins.  Ljóst er að Danir verða í efsta sæti B-riðils og leika þar með til úrslita í mótinu og miðað við stöðuna í A-riðli virðist fátt geta komið í veg fyrir að mótherjar þeirra verði Þjóðverjar.  Ef svo fer er ljóst að Danir verða Norðurlandameistarar sem efsta Norðurlandaþjóðin í keppninni.  ´Reyndar eiga Finnar möguleika á að ná Þjóðverjum að stigum, ef þeir vinna Ísland í lokaleiknum og ef Hollendingar vinna Þjóðverja.  Markamismunur milli Finna og Þjóðverja er hins vegar 11 mörk og því þurfa úrslitin að vera ansi hagstæð Finnum til að efsta sætið verði þeirra.
 

Um leikina á fyrsta leikdegi

A-riðill (staðan)

Ísland - Holland  2-2

Viðureign Íslands og Hollands var jöfn og spennandi allan tímann og greinilegt að bæði lið ætluðu sér sinn fyrsta sigur í keppninni eftir tap í fyrstu umferð.  Fjögur mörk litu dagsins ljós, þó ekki hafi verið mikið um opin færi og varnarleikur í fyrirrúmi.  Hollendingarnir voru sterkari framan af og skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins.  Sippie Folkertsma skoraði eina mark fyrri hálfeiks á 9. mínútu og Cheyenne van Goorbergh jók forystuna eftir aðeisn þrjár mínútur í síðari hálfleik.  Útlitið ekki gott fyrir Ísland, tveimur mörkum undir.  En okkar stelpur lögðu ekki árar í bát og tvö mörk frá Esther Rós Arnarsdóttur á 15 mínútna kafla í seinni hálfleik, tryggði Íslandi mikilvægt stig.  Leikurinn var afar kaflaskiptur eins og markaskorunin gefur til kynna, og þó jafntefli hafi verið sanngjörn niðurstaða voru Hollendingar nálægt því að skora sigurmarkið.  Allt kom þó fyrir ekki og 2-2 jafntefli niðurstaðan.

Þýskaland – Finnland 5-0

Eins og lokatölurnar gefa tilkynna hafði þýska liðið mikla yfirburði í þessum leik og í raun mesta mildi fyrir Finnana að sigurinn skyldi ekki vera stærri, því öll mörkin komu í fyrri hálfleik þó svo yfirburðirnir hafi ekki verið minni í þeim seinni. Jasmin Sehan tætti finnsku vörnina í sig hvað eftir annað og skoraði tvö mörk í leiknum, auk þess að misnota vítaspyrnu. Aðrir markaskorarar Þjóðverja í leiknum voru þær Saskia Meier, Laura Widak og Nina Ehegötz. Ljóst er að þetta þýska lið er gríðarlega sterkt og vilji eitthvað lið taka fyrsta sætið í þessu móti verður það að fara í gegnum þýska stálið.

Því má bæta við að dómari leiksins, Tinna Christensen, þurfti að hætta í hálfleik vegna meiðsla, og við flautunni tók varadómarinn Emilie Rodahl Dokset.

 

B-riðill (staðan)

Danmörk - Svíþjóð  3-0

Danir eru komnir í úrslitaleikinn á Opna NM U17 kvenna þegar tvær umferðir af þremur í riðlakeppninni eru búnar.  Þriggja marka sigur á Svíum í dag gerði það að verkum að danska liðið er öruggt með sætið í úrslitum, þar sem England og Noregur gerðu jafntefli í fyrri leik dagsins í B-riðli.  Nicoline Sörensen náði forystunni snemma leiks og Emma Sorensen bætti svo við tveimur mörkum áður en yfir lauk, einu í sitt hvorum hálfleiknum.  Sigur danska liðsins var öruggur og greinilegt að þarna er á ferðinni afar sterk kynslóð ungra og efnilegra danskra leikmanna.

 

England – Noregur 1-1

Norðmenn höfðu tögl og hagldir í fyrri hálfleik, án þess þó að skapa sér urmul marktækifæra. Enska liðið komst lítt áleiðis gegn því norska sem pressaði stíft um allan völl, þannig að uppspil Englendinga gekk afar illa, enda ógnuðu þær ensku norska markinu aldrei. Eina mark fyrri hálfleiks gerði Nora Hanssen og kom það á 10. mínútu. Seinni hálfleikur var keimlíkur framan af, en Englendingum óx ásmegin og þær uppskáru jöfnunarmark þegar varamaðurinn Keira Walsh jafnaði metin með glæsilegu skoti yfir fyrirliðann Idu Norstrom í norska markinu.