KSÍ VI þjálfaranámskeið í Wokefield í nóvember 2013
Knattspyrnusamband Íslands heldur 6. stigs þjálfaranámskeið í Wokefield Park, Englandi dagana 8.-15. nóvember 2013. Reiknað er með að fleiri þjálfarar sæki um námskeiðið en hægt er að taka inn. Umsækjendur þurfa því að fylla út umsóknareyðublað. Umsækjendur verða að hafa lokið KSÍ V þjálfaranámskeiði. Þeir þjálfarar sem eiga eftir að taka KSÍ V námskeið geta gert það helgina 11.-13. október er verið þar með gjaldgengir á KSÍ VI námskeiðið. Þeir þjálfarar þurfa samt sem áður að skila inn umsókn fyrir tiltekin tíma.
KSÍ VI þjálfaranámskeiðið er hluti af UEFA A þjálfaragráðunni en þjálfarar í Pepsi-deildum karla og kvenna, 1. deild karla og yfirþjálfarar unglingastarfs félaga í þessum deildum þurfa að hafa UEFA A þjálfaragráðu samkvæmt reglugerð KSÍ um menntun þjálfara og kröfu leyfisnefndar KSÍ.
KSÍ vekur athygli á því að síðasti dagur til að skila inn umsókninni er 15. ágúst næstkomandi, en auðvitað má skila umsóknum fyrr.
Áætlað verð er á bilinu 250.000-300.000 kr. Nánar auglýst síðar. Hægt verður að skipta greiðslunni niður eftir nánara samkomulagi við Pálma Jónsson, fjármálastjóra KSÍ.
Fræðslunefnd KSÍ stefnir á að taka inn 20 þjálfara á námskeiðið.
Á námskeiðinu er 100% mætingarskylda og það er bæði bóklegt og verklegt. Þátttakendur þurfa að taka þátt í verklegum tímum.
KSÍ VI þjálfaranámskeiðið er hluti af UEFA A þjálfaragráðu. Flesta dagana verður námskeiðið haldið í Wokefield Park. Einum degi verður varið til heimsóknar í klúbb í ensku úrvalsdeildinni eða Championship deildinni þar sem skoðuð verður knattspyrnuakademía. Einum degi verður varið í leikgreiningu á leik í ensku úrvalsdeildinni.
Á námskeiðinu kenna kennarar frá KSÍ og erlendir fyrirlesarar, væntanlega frá enska knattspyrnusambandinu. Hluti námskeiðsins fer fram á ensku.
Skriflegt próf verður haldið tveimur vikum eftir KSÍ VI námskeiðið. Prófað verður úr námsefni KSÍ V og VI.
Dagskrá námskeiðsins er í vinnslu og verður gefin út þegar nær dregur. Allar nánari upplýsingar um námskeiðið veita Dagur Sveinn Dagbjartsson (dagur@ksi.is) og Sigurður Ragnar Eyjólfsson (siggi@ksi.is).