Fundur 15 aðildarlanda UEFA
Dagana 18. og 19. júní fór fram vinnufundur UEFA um leyfismál og fjárhagslega háttvísi. Fundað var í höfuðstöðvum KSÍ og er þetta í fyrsta skipti sem þessi árlegi fundur fer fram hér á landi. UEFA skiptir aðildarsamböndunum í nokkra flokka miðað við „stærð“ sambandanna. Þannig eru KSÍ og hin 14 samböndin sem funduðu hér á landi „smærri“ samböndin innan UEFA.
Á þessum fundum er jafnan fjallað almennt um leyfiskerfið, regluverkið, vinnulag, þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar og þær breytingar sem framundan eru. Þessi sambönd eiga margt sameiginlegt þegar kemur að rekstri leyfiskerfis og eru því jafnan rædd sameiginleg hagsmunamál og viðfangsefni, og geta samböndin komið með tillögur að umfjöllunarefni. Að auki er þetta ávallt kjörinn vettvangur fyrir samböndin að deila reynslu sinni.
UEFA var með fimm fulltrúa á fundinum - þriðjung starfsfólk úr leyfisdeildinni þar á bæ. Aðrir fulltrúar á fundinum komu frá Andorra, Eistlandi, Finnlandi, Færeyjum, Írlandi, Íslandi, Lettlandi, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Möltu, Norður-Írlandi, San Marínó, Wales og loks Gíbraltar, sem hefur nýverið fengið inngöngu í UEFA og var þarna í fyrsta sinn með fulltrúa á formlegum UEFA-viðburði sem fullgild aðildarþjóð.
Auk kynninga frá fulltrúum UEFA kynnti KSÍ starfsemi sína í tengslum við leyfiskerfið og þann árangur sem hefur unnist frá innleiðingu kerfisins haustið 2002, auk þess að kynna sérstaklega það starf sem unnið er í þjálfaramenntun og uppeldi ungs knattspyrnufólks hér á landi. Í tengslum við það fór hópurinn í heimsókn til Breiðabliks, þar sem fulltrúar félagsins kynntu sitt uppeldisstarf og sýndu þá aðstöðu sem félagið hefur til umráða og aðgang að.
Lokahnykkurinn seinni daginn var síðan viðureign Víkings R. og Tindastóls í 16-liða úrslitum Borgunarbikars karla, þar sem hópurinn sá heimamenn vinna 2-1 sigur í sól og blíðu, „alvöru fótbolta, en ekki eitthvað sykurhúðað glimmer eins og í Meistaradeildinni“ eins og einn úr hópnum komst svo skemmtilega að orði.
Næsti fundur þessa hóps er í september komandi þegar allar aðildarþjóðir UEFA koma saman til þriggja daga ráðstefnu í Portúgal, en þar er einnig um að ræða árlegan viðburð.