Slóvenar höfðu betur í Laugardalnum
Slóvenar höfðu betur á Laugardalsvelli í kvöld en Íslendingar tóku á móti þeim í undankeppni HM. Lokatölur urðu 2 - 4 eftir að staðan hafði verið jöfn, 2 - 2 í leikhléi.
Það tók Íslendinga aðeins 12 sekúndur að fá fyrsta færið þegar Kolbeinn Sigþórsson slapp í gegn en markvörður Slóvena varði frá honum. Fyrsta markið var hinsvegar gestanna og kom það á 11. mínútu eftir laglega sókn. Á 22. mínútu kom glæsileg sókn Íslendingar sem lauk með því að Emil Hallfreðsson átti góða sendingu frá hægri á kollinn á Birki Bjarnasyni sem hamraði boltann niður í markhornið. Fjórum mínútum síðar var brotið á Alfreði Finnbogasyni og vítaspyrna dæmd. Alfreið setti boltann á punktinn og skoraði af öryggi. Það liðu hinsvegar aðeins fimm mínútur og þá var þýski dómarinn búinn að dæma aðra vítaspyrnu, að þessu sinni á Íslendinga. Hún var nýtt og liðin gengu til búningsherbergja með sín hvor tvö mörkin í farteskinu eftir afar fjörugan fyrri hálfleik.
Fjörið var ekki eins mikið í seinni hálfleik en íslenska liðið varð fyrir áfalli á 52. mínútu þegar Aron Einar Gunnarsson meiddist og varð að fara af velli. Slóvenvar komust svo yfir á 61. mínútu en rétt á eftir átti Eiður Smári Guðjohnsen, sem kom inn sem varamaður fyrir Aron Einar, frábæra sendingu inn á Alfreð en markvörður gestanna bjargaði andliti sinna manna með andlitinu. Síðasta mark leiksins var svo gestanna sem kom á 85. mínútu og í leikslok fögnuðu Slóvenar innilega sigrinum.
Svekkjandi tap og Ísland er í þriðja sæti riðilsins með níu stig, einu stigi á eftir Albaníu sem gerði jafntefli við Norðmenn í kvöld, 1 - 1. Sviss er í efsta sætinu með 11 stig en þeir leika gegn Kýpur á morgun. Næsti leikur Íslands í riðlinum er gegn Sviss á útivelli, 6. september, en næsta verkefnið er hinsvegar vináttulandsleikur gegn Færeyingum á Laugardalsvelli, 14. ágúst.
Fyrir leikinn risu allir 9.202 áhorfendur úr sætum og hylltu Hermann Gunnarsson með lófataki en Hermann féll frá 4. júní síðastliðinn. Sannarlega falleg stund í Laugardalnum í kvöld og stuðningssveitin Tólfan lét sitt ekki eftir liggja þarna, frekar en annars staðar í leiknum.