• lau. 01. jún. 2013
  • Landslið

Þær skosku höfðu betur í Laugardalnum

kvenna1
kvenna1

Ísland og Skotland mættust í vináttulandsleik í dag á Laugardalsvelli í fínu fótboltaveðri.  Lokatölur urðu 2 - 3 eftir að Skotar höfðu leitt í leikhléi, 1 – 3.  Þetta var síðasti leikur íslenska liðsins á heimavelli áður en það etur kappi við bestu þjóðir Evrópu í úrslitakeppni EM í sumar.

Gestirnir voru mjög sannfærandi í byrjun leiks og eftir 14 mínútna leik höfðu þeir skorað tvö mörk á laglegan hátt.  Sara Björk Gunnarsdóttir minnkaði muninn á 26. mínútu en þá hafði íslenska liðið komist betur inn í leikinn og sótti töluvert.  Skotar bættu hinsvegar við á 33. mínútu eftir hornspyrnu og leiddu því með tveimur mörkum þegar hin sænska Sara Persson flautaði til leikhlés.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson gerði fjórar breytingar í leikhléi og íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og tók öll völd á vellinum.  Hólmfríður Magnúsdóttir minnkaði  muninn á 52. mínútu eftir góða sókn og í kjölfarið fékk íslenska liðið góð tækifæri til að jafna metin en án árangurs.  Leikurinn jafnaðist heldur þegar leið á seinni hálfleikinn en íslenska liðið stjórnaði samt ferðinni án þess þó að skapa sér dauðafæri.  Lokatölur því 2 – 3 fyrir Skota í ákaflega kaflaskiptum leik.

Næsta verkefni liðsins vináttulandsleikur gegn Dönum en sá leikur fer fram í Viborg, 20. júní næstkomandi.  Það verður síðasti leikur liðsins fyrir úrslitakeppni EM í Svíþjóð en Ísland leikur sinn fyrsta leik gegn Noregi 11. júlí í Kalmar.