• mið. 17. apr. 2013
  • Landslið

Átta marka leikur hjá U16 kvenna

u16-kvenna-2013-IMG_6299
u16-kvenna-2013-IMG_6299
U16 landslið kvenna gerði í dag, miðvikudag, jafntefli við Norður-Írland í æsispennandi átta marka leik, en liðin áttust við í undirbúningsmóti UEFA sem fram fer í Wales.  Liðin skiptust á að taka forystuna en þurftu að lokum að sætta sig við að deila stigunum. 

Norður-Írarnir byrjuðu af krafti og tóku forystuna á 5. mínútu, en íslenska liði svaraði 5 mínútum síðar þegar Esther Rós Arnarsdóttir brunaði upp hægri kantinn, lék á varnarmann og skoraði af miklu öryggi.  Á 19. mínútu bætti Esther Rós við öðru marki sínu og því fjórða í keppninni þegar hún fylgdi vel eftir stangarskoti frá Huldu Ósk Jónsdóttur. skömmu síðar jöfnuðu N-Írar metin og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Síðari hálfleikur var ekki síður fjörugur og eftir réttar 10 mínútur voru Írarnir búnir að skora.  okkar stelpur náðu forystunni að nýju með tveimur mörkum um miðjan hálfleikinn.  Fyrst skoraði Lillý með frábæru skoti langt fyrir utan teig og Arna Dís Arnþórsdóttir bætti svo við fjórða íslenska markinu eftir fyrirgjöf frá Esther Rós.  Ekki leið langur tími þar til N-írska liðið jafnaði að nýju og þá lifðu um tíu mínútur af leiknum. 

Ekki litu fleiri mörk dagsins ljós, enda kannski nóg komið, og lokatölurnar urðu því 4-4.  Í hinum leik dagsins vann Wales Færeyjar 4-0.  Lokaumferðin fer fram á föstudag k. 10:00 að íslenskum tíma og mótherjarnir eru frænkur okkar frá Færeyjum.