• þri. 16. apr. 2013
  • Landslið

Öruggur fjögurra marka sigur U16 kvenna í Wales

uefa-logo-biglandscape
uefa-logo-biglandscape

U16 landslið kvenna vann í dag öruggan 4-0 sigur á Wales í sérstöku undirbúningsmóti UEFA fyrir þennan aldursflokk, en mótið fer einmitt fram í Wales.

Ísland náði forystunni í leiknum á 11. mínútu.  Fyrirliðinn Ingibjörg Sigurðardóttir tók þá hornspyrnu og sendi knöttinn inn í vítateig Wales-menn, þar sem varnarmaður þeirra varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Eftir hraða sókn íslenska liðsins á 35. mínútu barst knötturinn fyrir mark Wales.  Lillý Rut Hlynsdóttir skaut að marki, varnarmenn komust fyrir skotið, en Esther Rós Arnarsdóttir var vel vakandi í teignum og kom knettinum í markið.  Staðan í hálfleik 0-2 fyrir Ísland. 

Íslenska liðið hóf seinni hálfleikinn af miklum krafti og uppskar þriðja markið þegar 8 mínútur voru liðnar.  Fyrirliðinn Ingibjörg skoraði og útlit fyrir öruggan sigur Íslands.

Það var svo Esther Rós sem innsiglaði 4-0 sigur Íslands á lokamínútu leiksins.  Esther fékk frábæra sendingu fram völlinn frá Ingibjörgu fyrirliða og skoraði af miklu öryggi, en Ingibjörg átti stóran þátt í þremur af mörkum liðsins í leiknum.

Í hinum leik dagsins mættust frænkur okkar frá Færeyjum og Norður-Írar, en þar vann Norður-írska liðið örugga 7-0 sigur.

Næsti leikur íslenska liðsins er á miðvikudag kl. 16:00 að íslenskum tíma og er mótherjinn þá Norður-Írland.  Á sama tíma mætast Wales og Færeyjar.

u16-kvenna-2013-IMG_6270

Byrjunarliðið í leiknum