UEFA boðar 14 sambönd til fundar á Íslandi um leyfismál
UEFA hefur boðað fulltrúa 14 knattspyrnusambanda til vinnufundar á Íslandi um leyfismál og fjárhagslega háttvísi, en fundað verður í höfuðstöðvum KSÍ dagana 18. og 19. júní. Um er að ræða árlegan viðburð, en UEFA skiptir aðildarsamböndunum í nokkra flokka miðað við „stærð“ sambandanna. Þannig eru KSÍ og hin 13 samböndin sem funda hér á landi „smærri“ samböndin innan UEFA.
Á þessum fundum er jafnan fjallað almennt um leyfiskerfið, regluverkið, vinnulag, þær breytingar sem þegar hafa verið gerðar og þær breytingar sem framundan eru. Þessi sambönd eiga margt sameiginlegt þegar kemur að rekstri leyfiskerfis og eru því jafnan rædd sameiginleg hagsmunamál og viðfangsefni, og geta samböndin komið með tillögur að umfjöllunarefni. Að auki er þetta ávallt kjörinn vettvangur fyrir samböndin að deila reynslu sinni.
Búast má við tveimur fulltrúum frá hverju knattspyrnusambandi á ráðstefnuna, auk fulltrúa KSÍ og UEFA. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi árlegi viðburður er haldinn á Íslandi.