• þri. 09. apr. 2013
  • Landslið

U19 kvenna - Sigur á Portúgölum

Byrjunarlið Íslands gegn Finnum í milliriðli EM í Portúgal
Byrjunarlid-gegn-Finnum-06.04.2013

Stelpurnar í U19 unnu Portúgala í síðasta leik sínum í milliriðli fyrir EM en leikið var í Portúgal.  Lokatölur urðu 1 - 0 fyrir Ísland og skoraði Guðmunda Brynja Óladóttir eina mark leiksins í síðari hálfleik.  Íslenska liðið hafnaði í öðru sæti riðilsins sem dugar ekki til að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni sem fram fer í Wales í sumar.

Finnar voru fyrir leiki dagsins búnir að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni en þeir lögðu Norður Íra örugglega í dag, 5 - 0.

Tómas Þóroddsson sendi okkur eftirfarandi umfjöllun um leikinn:

Íslenska U-19 ára landslið kvenna lék í dag síðasta leik sinn í milliriðli Evrópumótsins í knattspyrnu. Leikið var við heimamenn í Portúgal og nokkuð öruggt var fyrir leik að þetta yrði leikur um 2. sæti í riðlinum þar sem Finnar voru búnir að vinna báða sína leiki. Eftir hörkuleik náði Guðmunda Brynja Óladóttir að setja eina mark leiksins í seinni hálfleik og unnu íslendingar því 1-0 og tryggðu sér 2. sætið.

Byrjunarlið Íslands var eftirfarandi: Halla Margrét Hinriksdóttir, Bryndís Björnsdóttir, Sigríður Lára Garðarsdóttir, Anna María Baldursdóttir, Guðrún Arnardóttir, Hildur Antonsdóttir, Andrea Rán Hauksdóttir, Írunn Aradóttir, Telma Þrastardóttir, Guðmunda Brynja Óladóttir og Aldís Kara Lúðvíksdóttir.

Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítil, en stöðubarátta mikil á vellinum. Portúgalir sköpuðu sér hættulegri færi, en Íslendingar fengu hættulegasta færi leiksins. Það kom er Telma stal knettinum á vallarhelming Portúgala, laumaði honum inn á Aldísi, en markmaður andstæðingana varði vel skot hennar.

Íslendingar gerðu tvær breytingar í hálfleik. Lára Kristín Petersen kom inn fyrir Írunni og Elín Metta Jensen kom inn fyrir Aldísi. Portúgalir byrjuðu seinni hálfleik af krafti, en vörn Íslendinga var sterk. Eftir fimm mínúta leik varði Halla Margrét frábærlega í markinu og þrem mínútum seinna bjargaði Anna María á línu.

En eftir þessar fyrstu mínútur Portúgala tóku Íslendingar leikinn í sínar hendur. Á 55. mín stakk Gumma inn á Telmu, en markmaður Portúgala var fljót út og náði til knattarins. Þrem mínútum seinna fékk Elín Metta eins færi, en aftur var markmaður Portúgala vel á verði.

Á 65. mín slapp Hildur Antons ein í gegn en ágætis skot hennar fór hárfínt framhjá. Mínútu seinna slapp Gumma ein í gegn eftir varnarmistök Portúgala, Gumma setti boltann örugglega í netið og kom Íslendingum yfir 1-0. Verðskulduð forysta Íslendinga staðreynd eftir nokkrar fínar sóknir.

Tveimur mínútum eftir mark Íslands komust Portúgal einar í gegn en sóknarmaður þeirra skaut framhjá. Á 72. mín átti Guðrún gott skot úr vítateig eftir hornspyrnu, en það var varið. Portúgölsku stelpunar voru þarna orðnar óþolinmóðar og reyndu mikið skot fyrir utan teig. Á 81. mín átti Elín Metta skot utan af kanti sem var varið. Á 84. mín kom Eyrún Eiðsdóttir inn fyrir Bryndísi. Eyrún fór út á hægri, Hildur í bakvörðinn, Elín Metta fremst á miðju og Telma fram.

Síðasta færi leiksins fengu Portúgalir er skalli þeirra fór yfir á 89. mín. Sanngjarn sigur Íslands því orðin að veruleika og 2. sætið þeirra. Það dugði þó ekki til þess að komast á lokakeppnina, en með jafntefli gegn Finnum hefðu stelpunar farið í úrslitakeppnina.