A kvenna - Tveggja marka tap gegn Svíum í Växjö
Íslenska kvennalandsliðið beið lægri hlut gegn Svíum í vináttulandsleik sem fram fór í Växjö í kvöld. Lokatölur urðu 2 - 0 fyrir Svía en markalaust var í leikhléi. Lotta Schelin gerði bæði mörk Svía, það síðara með síðustu spyrnu leiksins.
Leikurinn byrjaði fjörlega og heimastúlkur hófu leikinn af krafti. Óöryggi var yfir íslenska liðinu í byrjun en hinsvegar var fyrsta færi leiksins íslenskt og kom það strax á 2. mínútu. Hallbera átti þá góða sendingu fyrir markið og boltinn datt fyrir Fanndísi sem nái ekki að teygja sig í boltann frá markteig. Stuttu síðar bjargaði Þóra vel í markinu með góðu úthlaupi en íslenska liðið fann taktinn í varnarleiknum þegar leið á fyrri hálfleikinn og varðist liðið allt vel sem heild, alveg frá fremstu mönnum en þær Harpa og Rakel unnu gríðarlega vel sem fremstu menn.
Sænska liðið sótti meira en íslenska liðið átti góðar sóknir einnig og með örlítilli meiri yfirvegun hefði færin orðið fleiri. Markalaust í leikhléi og fyrri hálfleikur verulega góður. Svipað var upp á teningnum í þeim síðari en fyrsta markið kom á 54. mínútu eftir að varnarmönnum Íslands tókst ekki að koma boltanum frá eftir háa sendingu. Lotta Schelin nýtti sér það og skoraði af öryggi frá markteigshorni. Eftir markið færðist ró yfir sænska liðið og það hélt boltanum vel innan liðsins og var Þóra oft vel á verði í markinu. Sóknir Íslands voru ekki eins margar og í fyrri hálfleiknum en baráttan og aginn í leikskipulaginu til fyrirmyndar. Það var svo með síðustu spyrnu leiksins að Lotta Schelin skoraði sitt annað mark og Svía eftir fallega sókn.
Þrátt fyrir tapið gat íslenska liðið gengið hnarreist af velli en himinn og haf var á milli þessa leiks og þegar þessar þjóðir mættust á Algarve mótinu fyrir tæpum mánuði síðan. Vinnsla liðsins í varnarleiknum var mjög góð og ljóst að unnið hefur verið vel í þeim málum. Svíar eru með verulega sterkt lið og eru til alls líklegar á heimavelli í sumar þegar úrsltiakeppni EM hefst.
Næsta verkefni íslenska liðsins er vináttulandsleikur á Laugardalsvelli gegn Skotum sem fer fram 1. júní en það verður síðasti leikur liðsins á heimavelli fyrir EM í Svíþjóð.