A-karla - Stórkostlegur sigur í Slóveníu
Tvö mörk frá Gylfa Þór Sigurðssyni tryggðu þrjú dýrmæt stig þegar Ísland heimsótti Slóveníu í undankeppni HM en leikið var í Ljubliana. Lokatölur urðu 1 - 2 en heimamenn leiddu með einu marki í leikhléi.
Fyrri hálfleikur var ekki mikið fyrir augað en Slóvenar náðu forystunni á 34. mínútu með snyrtilegu marki. Heimamenn gengu til leikhlés með forystu en íslenska liðið náði sér ekki á strik í fyrri hálfleiknum.
Þegar 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik skoraði Gylfi Þór Sigurðsson magnað mark beint úr aukaspyrnu af löngu færi. Boltinn söng í samskeytum marksins og markvörður Slóvena átti aldrei möguleika þrátt fyrir góða tilburði. Jöfunarmarkið hleypti okkar mönnum kapp í kinn og á 78. mínútu var Gylfi aftur á ferðinni, afgreiddi boltann snyrtilega í netið eftir góða sendingu frá Eiði Smára Guðjohnsen, sem hafði komið inn sem varamaður stuttu áður. Heimamenn sóttu töluvert sem eftir lifði leiks en íslensku strákarnir stóðu vörnina vel og fyrir aftan þá var Hannes Þór Halldórsson öruggur í markinu. Það var svo vel fagnað þegar gríski dómarinn flautaði til leiksloka og þrjú dýrmæt stig í höfn.
Ísland er í 2. - 3. sæti riðilsins með níu stig eftir fimm leiki, með jafnmörg stig og Albanir sem lögðu Norðmenn á útivelli í kvöld. Sviss vermir efsta sætið með tíu stig en þeir eiga leik inni við Kýpur sem fram fer á morgun.
Næsti leikur Íslands í riðlinum verður einmitt gegn Slóveníu á Laugardalsvelli, 6. júní. Þeir Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson verða í leikbanni í þeim leik en þeir fengu báðir gult spjald í leiknum í kvöld.