16 þátttökuleyfi veitt á seinni fundi leyfisráðs
Seinni fundur leyfisráðs í leyfisferlinu fyrri keppnistímabilið 2013 fór fram föstudaginn 15. mars. Sextán félögum voru veitt þátttökuleyfi á fundinum, en átta félög höfðu fengið útgefin leyfi á fyrri fundi ráðsins mánudaginn 11. mars. Öll 24 félögin í efstu tveimur deildum karla hafa því fengið útgefin leyfi fyrir sumarið.
Á fundinum kynnti leyfisstjóri stöðu mála hjá félögunum 16 sem undirgangast leyfiskerfið og voru ekki afgreidd á fyrri fundi leyfisráðs þann 11. mars. Farið var yfir stöðu hvers félags um sig. Neðangreindum félögum voru veitt þátttökuleyfi:
- Pepsi-deild: Breiðablik, FH, Fram, Fylkir, ÍBV, Keflavík, Víkingur Ó og Þór.
- 1. deild: BÍ/Bolungarvík, KA, KF, Selfoss, Tindastóll, Víkingur R, Völsungur og Þróttur R.
Mannvirki
Stjórn KSÍ samþykkti aðlögunarfresti vegna mannvirkjaþátta til alls átta af ofangreindum félögum á fundi sínum fimmtudaginn 14. mars. Sá frestur sem hverju félagi var veittur miðaði við umfang þeirra framkvæmda sem ráðast þarf i til að keppnisvöllur þess félags uppfylli kröfur mannvirkjareglugerðar.
Félögin hafa því fengið þátttökuleyfi útgefið af leyfisráði, en leyfin eru veitt miðað við að gerðar verði úrbætur á mannvirkjum (áhorfendaaðstöðu og öðru þar sem við á) innan tiltekinna tímamarka. Þau tímamörk hafa verið kynnt félögunum. Þessi félög eru neðangreind:
- Fylkir vegna Fylkisvallar
- ÍBV vegna Hásteinsvallar
- Keflavík vegna Nettóvallarins
- Víkingur Ól. vegna Ólafsvíkurvallar
- Þór vegna Þórsvallar
- BÍ/Bolungarvík vegna Torfnesvallar
- KF vegna Ólafsfjarðarvallar
- Völsungur vegna Húsavíkurvallar
Þjálfaramenntun
ÍBV, KA, Selfoss og Þór voru minnt á að gæta að því að menntun aðstoðarþjálfara yngri flokka uppfylli settar kröfur.
FH og Þór voru minnt á að gæta að því að þjálfarar sæki nauðsynlega endurmenntun þar sem við á.
KF og Völsungur voru minnt á að gæta að því að menntun aðalþjálfara jafnt sem aðstoðarþjálfara yngri flokka uppfylli settar kröfur. Þessi félög undirgangast leyfiskerfið í fyrsta sinn og njóta því eins árs aðlögunarfrests.
Aðalþjálfari 4. flokks hjá Tindastóli uppfyllir ekki menntunarkröfur - er með 1. stig en þarf KSÍ-B. Málinu verður vísað til aga- og úrskurðarnefndar, sem ákveður viðurlög.
Dómgæsla og knattspyrnulögin
Enginn fulltrúi Fram sótti fund KSÍ um dómgæslu og knattspyrnulögin vor 2012 og enginn sambærilegur fundur var haldinn á vegum félagsins. Málinu verður vísað til aga- og úrskurðarnefndar, sem ákveður viðurlög.
Aðlögunarfrestur nýliða
Völsungur og KF eru nýliðar í leyfiskerfinu og eru því á eins árs aðlögun að þeim kröfum sem þar eru gerðar. Félögunum er bent á að fyrir keppnistímabilið 2014 þarf að vera tryggt að þau uppfylli allar lykilkröfur og hafa þau þegar lagt fram áætlanir sínar þess efnis, sem sýna hvernig kröfurnar verða uppfylltar og hvenær.