Átta þátttökuleyfi gefin út á fyrri fundi leyfisráðs
Fyrri fundur leyfisráðs í leyfisferlinu fyrir keppnistímabilið 2013 fór fram á mánudag. Leyfisstjóri kynnti stöðu mála hjá félögunum 24 sem undirgangast leyfiskerfið. Farið var yfir stöðu hvers félags um sig og skýrt frá vandamálum og/eða ókláruðum atriðum.
Ákveðið var að gefa félögum með ókláruð atriði frest til föstudagsins 15. mars til að klára útistandandi atriði. Þessi félög eru eftirtalin:
- Pepsi-deild: Breiðablik, FH, Fram, Fylkir, ÍBV, Keflavík.
- 1. deild: BÍ/Bolungarvík, KA, KF, Selfoss, Tindastóll, Víkingur R., Völsungur, Þróttur R.
Jafnframt var ákveðið að gefa út þátttökuleyfi til handa þeim félögum sem uppfylla allar lykilkröfur. Neðangreindum félögum voru veitt þátttökuleyfi:
- Pepsi-deild: ÍA, KR, Stjarnan, Valur.
- 1. deild: Fjölnir, Grindavík, Haukar, Leiknir R.
Leyfisráð gerir tillögu til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ um að Leiknir R. verði beittur viðurlögum þar sem félagið uppfyllti ekki grein 22 á árinu 2012.
Grein 22 – Dómgæsla og knattspyrnulögin
22.1 Leyfisumsækjandi verður að sýna fram á að a.m.k. fyrirliði meistaraflokks, aðalþjálfari meistaraflokks og yfirþjálfari unglingastarfs hafi sótt fundi eða kynningu um dómgæslu og knattspyrnulögin á vegum KSÍ á undangengnu ári, þ.e. á árinu á undan leyfistímabilinu.
Úr leyfisreglugerð: Ef forsendur skilgreindar í greinum 22, 23, 26, 35, 39, 41, 42 og 43 eru ekki uppfylltar, þá leiðir það ekki til þess að þátttökuleyfi verði hafnað, heldur til viðurlaga samkvæmt grein 8.