A-kvenna - Öruggur sigur á Ungverjum
Ísland lagði Ungverja að velli í dag í leik um níunda sætið á Alagarve-mótinu. Lokatölur urðu 4 - 1 eftir að íslensku stelpurnar höfðu leitt í leikhléi 1 - 0.
Íslenska liðið hafði nokkra yfirburði í leiknum og fékk mörg góð marktækifæri, fyrir utan þau sem voru nýtt til fullnustu. Sara Björk Gunnarsdóttir braut ísinn á 10. mínútu með skallamarki eftir aukaspyrnu frá Glódísi Perlu Viggósdóttur. Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik, þrátt fyrir fín færi. Rakel Hönnudóttir bætti við öðru marki Íslands á 55. mínútu þegar hún slapp inn fyrir vörn Ungverja og skoraði af fádæma öryggi. Þriðja mark Íslands skoraði svo Katrín Ómarsdóttir, beint úr aukaspyrnu frá vítateigsboga, á 80. mínútu leiksins. Ungverjar minnkuðu svo muninn á 87. mínútu með marki úr vítaspyrnu en lokaorðið átti Sandra María Jessen með marki á lokamínútunni eftir góðan undirbúnin Elínar Mettu Jensen.
Níunda sætið því staðreynd á hinu sterka Algarve-móti en síðar í dag leika Bandaríkin og Þýskaland til úrslita á mótinu.
Markvörðurinn Birna Kristjánsdóttir lék sinn fyrsta A-landsleik í dag þegar hún kom í markið fyrir Þóru Helgadóttur.