U19 kvenna - Öruggur sigur á Hollandi
Stelpurnar í U19 lögðu stöllur sínar frá Hollandi í dag í vináttulandsleik sem fram fór á La Manga. Lokatölur urðu 3 - 1 fyrir Ísland og lögðu stelpurnar grunninn að góðum sigri í fyrri hálfleik en þær leiddu í leikhléi, 3 - 0.
Upphafsmínútur leiksins voru fjörugar og kom fyrsta markið á 3. mínútu þegar Hollendingar skoruðu sjálfsmark eftir hornspyrnu Íslendinga. Á 17. mínútu fengu Íslendingar aðra hornspyrnu og í þetta skiptið skallaði Sigríður Lára Garðarsdóttir boltann í netið eftir hornspyrnu Andreu Ránar Hauksdóttur. Stuttu síðar komst Guðmunda Brynja Óladóttir ein inn fyrir vörn Hollands en markvörður þeirra sá við henni. Á milli tveggja fyrstu marka Íslendinga þurfti Halla Margrét Hinriksdóttir að vera tvisvar vel á verði í marki Íslendinga.
Eftir seinna markið tók íslenska liðið öll völd á vellinum og á 33. mínútu skoraði Telma Þrastardóttir þriðja mark Íslands eftir góða sókn og frábæra sendingu frá Hildi Antonsdóttur. Seinni hálfleikur var heldur jafnari en sá fyrri en íslenska liðið þó hættulegri aðilinn. Eina mark síðara hálfleiks var hinsvegar frá Hollandi og koma á lokaandartökum leiksins. Öruggur sigur Íslands í höfn en liðið verður aftur á ferðinni á föstudaginn þegar leikið verður gegn Skotum.