Úrslitakeppni EM kvenna - Niðurtalningin hafin
Eins og kunnugt er þá hefst úrslitakeppni EM kvenna í Svíþjóð þann 10. júlí næstkomandi. Til þess að aðstoða óþreyjufulla Íslendinga þá geta þeir fylgst með niðurtalningu í keppnina á forsíðu heimasíðu KSÍ. Það eru því 127 dagar þangað til að herlegheitin hefjast með leik Ítalíu og Finnlands. Með því að smella á "niðurteljarann" á forsíðunni má finna ýmsar upplýsingar varðandi keppnina, miðasölu og fleira. Íslensku stelpurnar hefja leik 11. júlí þegar þær mæta Noregi í Kalmar.
Á heimasíðu UEFA má finna ýmsa tölfræði úr undankeppninni sjálfri og kemur þar ýmislegt fróðlegt í ljós.
Íslenska liðið var ansi sókndjarft ef mið er tekið af þessari tölfræði. T.a.m átti Hólmfríður Magnúsdóttir flest skot á markið, ásamt hinni þýsku Célia Okoyino da Mbabi markahæsta leikmanni undankeppninnar, eða 25 talsins. Margrét Lára Viðarsdóttir kom þar næst með 24 skot á markið. Hólmfríður átti einnig flest skot að marki, eða 24 talsins. Þá átti Fanndís Friðriksdóttir næstflestar stoðsendingar, 7 talsins. Margrét Lára var svo oftast dæmd rangstæð allra í keppninni, alls í 21 skipti.
Þá lét íslenska liðið finna nokkuð fyrir sér því engin var eins oft dæmd brotleg í undankeppninni eins og Sara Björk Gunnarsdóttir en í 29 skipti þótti hún ganga full harkalega fram.
Hægt er að sjá, með því að smella á tengilinn hér að neðan, ýmsa aðra tölfræði frá keppninni en hafa skal í huga að í þremur riðlum undankeppninnar léku 6 þjóðir en 5 þjóðir í hinum. Voru því leiknir fleiri leikir í riðlum 1 - 3.
http://www.uefa.com/womenseuro/season=2013/statistics/round=2000179/players/index.html