Skin og skúrir á Algarve
A landslið kvenna kom til Algarve í gærkvöldi en á morgun fer fram fyrsti leikur Íslands á mótinu þegar leikið verður gegn efsta liðinu á styrkleikalista FIFA, Bandaríkjunum. Leikurinn hefst kl. 14.00 að íslenskum tíma.
Liðið æfði í morgun og tekur svo aðra æfingu síðar í dag. Aðstæður á Algarve eru að venju góðar en þó hafa skipst á skin og skúrir í veðurfarinu, sólarglennum fléttað saman við regnskúrir. Ástandið á hópnum er þó gott og tóku allir leikmenn þátt á æfingunni í morgun.
Þá var haldinn blaðamannafundur með þjálfurum liðanna í dag þar sem þeir sátu fyrir svörum. Leikið er í þremur riðlum og voru því þjálfarnir 12 sem sátu fyrir svörum í dag.
Sýnt verður frá nokkrum leikjum mótsins á sjónvarpsstöðinni Eurosport en margir landsmanna hafa aðgang að henni. Þ.m.t. verður leikur Íslands og Svíþjóðar sýndur þar föstudaginn 8. mars, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, en leikurinn hefst kl. 18:00 að íslenskum tíma. Allir leikir Bandaríkjanna verða einnig sýndir þar í landi en óvíst hvort útsendingar frá þeim náist hér á landi.
Leikurinn við Bandaríkin verður ekki eini kvennalandsleikur Íslands á morgun því þá hefja stelpurnar í U19 líka leik en þær taka þátt á æfingamóti á La Manga. Andstæðingar morgundagsins verða Hollendingar.
Fylgst verður með báðum þessum leikjum á Facebooksíðu KSÍ.