• lau. 09. feb. 2013
  • Ársþing

Setningarræða formanns á 67. ársþingi KSÍ

Geir Þorsteinsson setur 67. ársþing KSÍ
Geir-arsthing-2013

Nú stendur yfir 67. ársþing KSÍ og fer það fram á Hótel Hilton Nordica.  Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, setti þingið kl. 11:00 í morgun og hér að neðan má sjá setningarræðu Geirs.

 

Árið 2012 var á margan hátt gott fyrir íslenska knattspyrnu. Nýir og ferskir vindar léku um A landslið karla. Liðið var undir stjórn nýs þjálfara, Svíans Lars Lagerbäck, sem byggði upp lið með marga unga og efnilega leikmenn í aðalhlutverkum. Undankeppni HM 2014, en úrslitakeppnin fer fram í Brasilíu, hófst sl. haust með 4 leikjum, 2 á heimavelli og 2 á útivelli. Íslenska liðið vann 2 leiki en tapaði 2 og er sem stendur í 3. sæti í sínum riðli með 6 stig á eftir Sviss (með 10 stig) og Noregi (7 stig). Á eftir koma Albanía (með 6 stig), Slóvenía (3 stig) og Kýpur (3 stig). Spennandi ár er því framundan hjá íslenska landsliðinu og góður árangur í þeim 6 leikjum sem eftir eru getur skilað liðinu í sæti sem gefur þátttökurétt í HM. Evrópa mun eiga 13 lið í úrslitakeppni HM 2014. Þar verða sigurvegarar riðlanna 9 í undankeppninni í Evrópu auk þess sem þau 8 landslið sem hafna í 2. sæti riðlanna 9 og bestum árangri ná munu leika um 4 sæti með útsláttarfyrirkomulagi.

Á næsta ári hefst undankeppni EM 2016 en úrslitakeppnin mun fara fram í Frakklandi. Þar munu 24 þjóðir leika til úrslita, 8 fleiri en 2012. Þar með aukast möguleikar Íslands en 3. sætið í riðlum undankeppninnar getur gefið sæti í úrslitakeppninni. Sá hópur sem nú myndar landsliðið ætti að vera klár í þann slaginn. Úrslitakeppni HM 2018 fer svo fram í Rússlandi og HM 2022 í Katar. Knattspyrnusamband Evrópu hefur ákveðið að úrslitakeppni EM 2020 fari fram í 13 borgum í jafnmörgum löndum Evrópu og þannig verði haldið upp á 60 ára afmæli keppninnar.

A landslið kvenna heldur áfram að gera það gott og tryggði sér rétt til þátttöku í úrslitakeppni EM 2013 sem fram fer í Svíþjóð í júlí. Ísland leikur þar í riðli með Noregi, Þýskalandi og Hollandi, en alls taka 12 landslið þátt í úrslitakeppninni. Það verður áhugavert að fylgjast með framgangi íslenska liðsins í sumar en liðið er skipað leikmönnum sem hafa mikla reynslu og margar þeirra tóku þátt í úrslitakeppni EM 2009. Eftir riðlakeppnina taka við 8 liða úrslit og þangað stefnir íslenska liðið. Leikmenn liðsins eiga hrós skilið fyrir góðan árangur. Þjálfarinn Sigurður Ragnar Eyjólfsson og starfslið hans hafa skilað frábæru starfi enn og aftur.

Í haust hefst svo undankeppni HM kvenna en úrslitakeppnin fer fram í Kanada 2015. Þá munu í fyrsta sinn leika 24 þjóðir til úrslita, en síðast voru þær 16. Evrópa mun eiga 8 sæti af 24. Knattspyrnusamband Evrópu hefur ákveðið að frá og með 2017 muni 16 þjóðir leika til úrslita í Evrópumóti kvenna. Þessar ákvarðanir FIFA og UEFA sýna að mikilvægi og vinsældir knattspyrnu kvenna eru að aukast.

Yngri landsliðin léku fjölmarga leiki á árinu en hæst bar frábær árangur U17 landsliðs karla sem vann sér rétt til að leika í úrslitakeppni EM 2012 sem fram fór í Slóveníu í maí. Það voru 53 landslið sem hófu keppni en aðeins 8 léku til úrslita. Það er ljóst á árangri yngri landsliða að uppeldisstarf íslenskra félaga skilar mörgum efnilegum leikmönnum um þessar mundir. Landslið Íslands í knattspyrnu léku alls 69 leiki á árinu 2012, fleiri en nokkru sinni fyrr á einu ári. Eins og ávallt er það markmið sérhvers leikmanns að leik fyrir hönd þjóðarinnar. Það voru alls 256 leikmenn sem svo gerðu á árinu, 115 konur og 141 karl. Ótaldir eru þeir leikmenn sem ekki komu við sögu inn á vellinum sem og allur sá mikli fjöldi sem boðaður var á úrtaksæfingar.   

Það er gott að staldra við og rifja upp árangur Íslands sl. ár en við höfum átt lið í úrslitakeppni Evrópu frá 2007 sem hér segir: U19 landslið kvenna lék í 8 liða úrslitum 2007 sem fram fór á Íslandi, U17 landslið karla lék í 8 liða úrslitum 2007,  A landslið kvenna lék í 12 liða úrslium 2009, U21 landslið karla lék í 8 liða úrslitum 2011, U17 landslið kvenna lék í 4 liða úrslitum 2011 og  U17 landslið karla lék í 8 liða úrslitum 2012. Þá hefur A landslið kvenna tryggt sér sæti í 12 liða úrslitum í sumar eins og fram hefur komið. Þessi árangur Íslands, 7 landslið í úrslitum í Evrópu á 7 árum, hefur vakið verðskuldaða athygli innan sem utan lands og staðfestir vel það góða uppbyggingarstarf sem unnið er innan raða KSÍ. Knattspyrnusamband Evrópu hefur ákveðið að frá og með 2015 muni 16 þjóðir leika til úrslita í EM U17 karla og frá og með 2014 leika 8 þjóðir til úrslita í EM U17 kvenna. Knattspyrnusamband Evrópu hefur falið KSÍ að halda úrslitakeppni Evrópumóts U17 kvenna árið 2015. Þá mun KSÍ halda Norðurlandamót U17 kvenna í ár en leikið verður á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu í sumar.

Góðir þingfulltrúar

FH varð Íslandsmeistari í sjötta sinn í meistaraflokki karla frá 2004 þegar félagið vann í fyrsta sinn. Það má með sönnu segja að sl. áratugur hafi verið tímabil FH í íslenskri knattspyrnu, en félagið hefur frá 2004 hafnað í 1. eða 2. sæti Íslandsmótsins. Sannarlega glæsilegur árangur sem erfitt verður að leika eftir. Víkingur Ólafsvík náði þeim frábæra árangri í Íslandsmótinu að komast upp í efstu deild karla í fyrsta sinn í sögu félagsins, en það var lið Þórs frá Akureyri sem fylgdi Ólsurum upp eftir góðan sigur í 1. deildinni. Árið var Þórsurum gott því að félagið lék í Evrópukeppni félagaliða fyrst liða úr 1. deild karla og komst í 2. umferð. Þá varð Þór/KA Íslandsmeistari kvenna í fyrsta sinn á sannfærandi hátt og þar með var nýtt nafn ritað á Íslandsbikarinn annað árið í röð. Þróttur R. og HK/Víkingur unnu sér rétt til að leika í efstu deild kvenna. KR varð bikarmeistari í 13. sinn í meistaraflokki karla eftir sigur á Stjörnunni sem lék í fyrsta sinn til úrslita. Stjarnan varð bikarmeistari í meistaraflokki kvenna í fyrsta sinn þegar liðið lagði Val í úrslitaleik.

Völsungur og KF unnu sér rétt til að leika í 1. deild karla og Sindri og Ægir unnu sér rétt til að leika í 2. deild karla. Íslandsmótið 2012 markaði tímamót því að samþykkt var á ársþingi KSÍ að fjölga landsdeildum um eina. Því var leikið um það sérstaklega hvaða félög léku í nýrri 3. deild karla sem skipuð verður 10 liðum. Í fyrstu 3. deild karla sem leikin verður sem landsdeild 10 liða verða: Augnablik, Fjarðabyggð, Grundarfjörður, Huginn, ÍH, Kári, KFR, Leiknir F., Magni og Víðir. Svo sannarlega landsdeild með réttu. Á síðasta ári voru 30 félög í lægstu deild en nú hafa skráð sig 25 félög til leiks í 4. deild karla. Ég óska öllum sigurvegurum sl. árs til hamingju með góðan árangur.

Mótahald var í föstum skorðum og aðeins voru gerðar smávægilegar breytingar á keppnisfyrirkomulagi yngri flokka en þar fer meginhluti leikja KSÍ fram. Stjórn KSÍ hefur ákveðið að gera nokkrar breytingar fyrir komandi tímabil á reglugerðum er varða mótahald. Stjórn KSÍ ákvað að samræma reglur  um fjölda varamanna í meistaraflokki sem leiðir til þess að í keppni í öllum deildum og bikarkeppni í meistaraflokki mega nú vera 7 varamenn og 7 í liðsstjórn. Dómari er nú gert skylt að skrá atvik á leikskýrslu með tölvu beint í gagnagrunn KSÍ að leik loknum á leikstað þannig að segja má að leiksskýrsla KSÍ sé þar með að fullu orðin rafræn sem gefur fjölmiðlum og áhugafólki um knattspyrnu nauðsynlegar upplýsingar með öruggum og skjótum hætti. Það er rétt að minna á að nettengd tölva þarf nú að vera til staðar í klefa dómara á leikjum á vegum KSÍ. Þá var ákveðið að falla frá framlengingu í vormótum KSÍ og því verður ekki lengur framlengt í leikjum í meistarakeppni KSÍ og deildarbikarkeppni KSÍ ef jafnt er heldur verður farið beint í vítaspyrnukeppni. Þá hefur verið ákveðið að reyna að bæta enn þjálfun yngstu iðkenda með því að leika í 5 manna knattspyrnu í Polla- og Hnátumóti KSÍ í stað 7 manna áður.

Stjórn KSÍ samþykkti nú í byrjun árs ný ákvæði í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót og reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál sem varða óeðlileg afskipti af úrslitum leikja, þar sem kveðið er á um skyldur aðila innan okkar vébanda sem og refsiákvæði. Við verðum að halda vöku okkar í þessum málum og gera allt sem í okkar valdi stendur til að vernda knattspyrnuleikinn frá glæpsamlegri veðmálastarfsemi. Úrslit knattspyrnuleiks verða ávallt að ráðast á vellinum í heiðarlegum leik.  

Á árlegri verðlaunaafhendingu UEFA fyrir markaðsmál tengd knattspyrnu, sem fram fór í Róm í lok nóvember, hlaut Ísland verðlaun fyrir markaðssetningu á Pepsi-deildunum í knattspyrnu. Fimmtán þjóðir kepptu við Ísland í flokknum Best Sponsorship Activation, en sá flokkur þykir afar eftirsóttur og mörg glæsileg verkefni kepptu um sigur. Þetta voru ánægjuleg tíðindi sem endurspegla hið mikla markaðsstarf sem unnið er af Ölgerðinni og félögunum í deildunum. Borgun gekk til liðs við KSÍ og nú ber Bikarkeppni KSÍ heiti fyrirtækisins, þ. e. Borgunarbikarinn.

Góðir þingfulltrúar

Hvers kyns fræðslustarf skipar sífellt stærri sess í starfsemi KSÍ. Á starfsárinu voru haldnir fleiri fræðslufundir og námskeið en nokkru sinni fyrr í sögu KSÍ. Aukin þekking hvort sem er á tæknilegum hliðum leiksins eða rekstrar varðar brautina til meiri fagmennsku og vonandi betri árangurs. KSÍ hóf sókn í menntun leikmanna og þjálfara í markvörslu en það er vel þekkt að sú leikstaða krefst  meiri sérþekkingar en aðrar stöður á vellinum. Markmannsskóli KSÍ varð að veruleika fyrir unga markverði í 4. aldursflokki og stefnt er á að bæta við 3. aldursflokki. Heimsþekktur fyrrverandi markvörður, Patrick Bonner, mun í allan vetur leiðbeina markvarðaþjálfurum okkar til að auka sérþekkingu og gæði þjálfunar hér á landi. Stjórn KSÍ hefur í því sambandi samþykkt að setja menntunarkröfur á markvarðaþjálfara knattspyrnuliða.  KSÍ hélt læknaráðstefnu til að auka þekkingu á sviðum knattspyrnuíþróttarinnar á þeim vettvangi. Við höfum séð það í áranna rás að íslenskir atvinnumenn leita oft til lækna hér á landi og sýnir það vel að kunnátta þeirra er í fremstu röð. Um síðustu helgi kom hingað til lands yfirmaður félagaskiptamála hjá FIFA og hélt fyrirlestur um félagaskiptagjöld og fleira. Slík námskeið eru afar fróðleg og ekki skemmir fyrir þegar fyrirlesarar eru í fremstu röð í sínu fagi. Það er stefna KSÍ að halda áfram á sömu braut því að aukin þekking mun bæta okkar starf.

Leyfiskerfi KSÍ var fyrst tekið í notkun fyrir keppnistímabilið 2003 og var leyfisferlið því það tíunda í röðinni árið 2012. Því er rétt að líta aðeins til baka og skoða hvað hefur áunnist á þessum árum. Árið 2002 var afar fátítt að knattspyrnudeildir íþróttafélaga væru með endurskoðaða ársreikninga með fullri áritun, en í dag er það mikið gæðamerki á rekstri knattspyrnufélags að reksturinn hafi hlotið áritun endurskoðanda. Alls hafa rúmlega 30 félög undirgengist leyfiskerfið einu sinni eða oftar og hafa þar með fengið endurskoðun á ársreikninga sína þau ár. Gríðarleg aukning hefur orðið á menntuðum þjálfurum á Íslandi og er það ekki síst að þakka þeim kröfum sem gerðar eru í leyfiskerfi KSÍ. Í dag er staðan þannig að félögin sem leika í efstu tveimur deildum karla eru að öllu jöfnu með KSÍ-A eða KSÍ-B þjálfara í öllum flokkum. Sá þáttur sem hefur gengið í gegnum hvað mesta breytingu er án efa aðstaða áhorfenda á knattspyrnuvöllum. Árið 2000 gátu einungis 5-6 knattspyrnuleikvangar talist hafa sæti fyrir áhorfendur. Árið 2012 nálgast sú tala þrjátíu leikvanga, en á árinu var ný stúka tekin í notkun við Hásteinsvöll í Vestmannaeyjum og sætum var komið fyrir í stúkunni á Akureyrarvelli. Þessu tengt er rétt að geta framkvæmda sem skipta okkur einnig miklu máli. Byggður var nýr leikvöllur á Húsavík með knattspyrnugrasi af bestu gerð og knattspyrnugrasið var endurnýjað á Stjörnuvelli, í Reykjaneshöllinni og Hópinu í Grindavík svo það er nú einnig af bestu gerð á þessum stöðum. Hamarshöllin var vígð, loftborið og upphitað fjölnota íþróttahús með knattspyrnugrasi að hluta og knattspyrnuhús var vígt á Höfn í Hornafirði sem þekur hálfa völl með knattspyrnugrasi. En við verðum í sameiningu að halda baráttunni áfram fyrir betri og aukinni aðstöðu og gera þær kröfur til sveitarfélaga að lokið sé við framkvæmdir, t. d. með því að byggja þök á nýjar stúkur. Þá er mikilvægt að huga sífellt að betri aðbúnaði leikmanna, s. s. búningsklefum og annarri aðstöðu.

Leyfisreglugerð KSÍ fór enn á ný í gegnum endurskoðun skv. nýjum kröfum Knattspyrnusambands Evrópu. Ný reglugerð tók gildi í nóvember. Helsta breytingin á reglugerðinni er afar veigamikil og gjörbreytir í raun þeim fjárhagslegu kröfum sem gerðar eru til þeirra félaga sem undirgangast leyfiskerfið. Um er að ræða kröfur um fjárhagslega háttvísi sem taka gildi í leyfisferlinu fyrir keppnistímabilið 2014. Krafa er gerð um jákvæða eiginfjárstöðu. Grunnreglan er sú að félag sem er með eða lendir í neikvæðri eiginfjárstöðu fær tvö ár til að bæta úr því. Leyfisumsækjandi með verulega neikvæða eiginfjárstöðu (meira en 10% af knattspyrnulegum rekstrartekjum) getur fengið tveggja ára auka aðlögun að forsendunni, en þarf að sýna fram á bætta stöðu eftir tvö ár (lækkun um 40%) til að fá það. Nýtt ákvæði um hámarksskuldabyrði. Heildarskuldir og skuldbindingar mega ekki vera hærri en 50% að meðaltali af knattspyrnulegum rekstrartekjum yfir 3 undangengin ár. Grunnreglan er sú að félag sem fer yfir hámarksskuldabyrði fær tvö ár til að bæta úr því. Leyfisumsækjandi með skuldabyrði sem er meira en 60% í upphafi, getur fengið tveggja ára aukaaðlögun að forsendunni, en þarf a.m.k að halda í horfinu fyrstu tvö árin til að fá það. Aukaaðlöngun skv. þessum ákvæðum gildir til loka leyfisárs 2017. Lítið sem ekkert hefur verið fjallað um þessar breytingar á opinberum vettvangi en ljóst má vera að með þeim er stigið metnaðarfullt skref til að gera rekstur knattspyrnufélaga enn traustari og betri.

Góðir þingfulltúar.

Rekstrartekjur KSÍ á árinu 2012 námu 842 milljónum króna samanborið við 766 milljónir króna á árinu 2011. Hækkun rekstrartekna skýrist af auknu framlagi frá UEFA en nýhafið fjögurra ára tímabil, 2012-2015, tryggir KSÍ rúmar 2 milljónir Evra í tekjur frá UEFA árlega auk framlags í mannvirkjasjóð.

Rekstrarkostnaður KSÍ var 794 milljónir króna samanborið við 705 milljónir króna á árinu 2011. Áætlun gerði ráð fyrir 713 milljón króna rekstrarkostnaði svo að kostnaðurinn var um 80 milljónir króna meiri en áætlað hafði verið. Þessi munur skýrist að stærstum hluta af auknum kostnaði við landslið, rúmar 50 milljónir króna, en verkefni urðu fleiri en áætlað hafði verið.  Þá fór mótakostnaður 12 milljónir króna fram úr áætlun sem skýrist að stærstum hluta af auknum ferðakostnaði dómara.

Rekstrarhagnaður ársins nam tæpum 48 milljón króna, en áætlanir gerðu ráð fyrir rúmlega 63 milljóna króna hagnaði. Að teknu tilliti til fjármagnsliða var hagnaður af starfsemi KSÍ um 72,5 milljónir króna.

Styrkir og framlög til aðildarfélaga á árinu námu um 72 milljónum króna vegna barna- og unglingastarfs, leyfiskerfis og fleira. Samþykkt áætlun gerði ráð fyrir styrkjum að fjárhæð 77 milljónir króna. Að teknu tilliti til styrkja og framlaga til aðildarfélaga nam hagnaður ársins tæpri hálfri milljón króna.

Fjárhags- og eignastaða KSÍ er traust við áramót og lausafjárstaða góð. Handbært fé hækkar á milli ára og var nú í árslok um 473 milljónir króna. Eignir eru metnar á 892 milljónir króna. Eigið fé KSÍ var ríflega 228 milljónir króna í árslok.

Rekstrartekjur KSÍ voru 794 milljónir króna eins og áður sagði og að auki runnu um 350 milljónir króna til aðildarfélaga KSÍ sem ekki voru tekjufærðar hjá knattspyrnusambandinu heldur viðkomandi félögum en það voru framlög frá UEFA og tekjur af sjónvarps- og markaðsrétti. Í heild voru tekjurnar því tæplega 1.150 milljónir króna og var um einn þriðji þeirra tekjufærður hjá aðildarfélögum sambandsins. Þá er ótalinn mannvirkjasjóður KSÍ en hann var fjármagnaður að fullu með framlagi frá UEFA og fór til framkvæmda aðildarfélaga. Alls voru greiddar tæplega 59 milljónir króna úr mannvirkjasjóð KSÍ árið 2012 en þess skal þó getið að um 11 milljónir króna voru vegna sparkvallaátaks KSÍ. Gera má ráð fyrir að rekstrartekjur knattspyrnufélaganna í heild hafi verið um 3,5  milljarður króna á árinu 2012.

Við þetta tækifæri vil ég þakka Hannesi Þ. Sigurðssyni fyrir hans ómetanlega framlag við gerð ársreiknings Knattspyrnusambands Íslands, en hann hefur verið skoðunarmaður í 60 ár samfellt. Hannes gefur ekki kost á sér áfram. Hann var einn af okkar fremstu dómurum um árabil og í hópi milliríkjadómara Íslands. Hann er heiðursfélagi KSÍ og starfar enn sem eftirlitsmaður á leikjum á vegum sambandsins. Við skulum þakka Hannesi skoðunarstörfin í 60 ár samfellt með hressilegu lófataki.  

KSÍ náði mikilvægu samkomulagi við Sportfive á starfsárinu sem gerir sambandinu kleift að taka þátt í sameiginlegri sölu Knattspyrnusambands Evrópu á sjónvarpsrétti frá öllum leikjum í undankeppni EM 2015 ásamt öllum aðildarlöndum UEFA. KSÍ og Sportfive munu halda áfram samstarfi skv. samningi aðila nema hvað UEFA mun fara með fyrrnefnd réttindi auk þess sem Sportfive mun selja sjónvarpsréttindi og tiltekin markaðsréttindi fyrir efstu deild og bikar á markaðsvirði árin 2014 og 2015 en ekki gjalda fyrir þau föstu umsömdu verði eins og verið hefur. Sameiginleg sala réttinda frá undankeppni EM 2016 og HM 2018 verður í höndum Knattspyrnusambands Evrópu. Tekjur KSÍ af þessum réttindum munu aukast og KSÍ mun geta tryggt félögum í efstu deild sambærilegar tekjur til 2015 eins og samningurinn við Sportfive kvað á um þrátt fyrir ofangreindar breytingar.

Það er vandasamt og krefjandi að reka knattspyrnufélag og láta enda ná saman. Stjórn KSÍ hefur á undanförnum árum markvisst reynt að létta undir með aðildarfélögum, bæði með fjárframlögum og ekki síður með því að taka yfir kostnað við þátttöku í mótum sambandsins. Það er öllum ljóst að ferðakostnaður félaga sem staðsett eru fjarri höfuðborgarsvæðinu er þungur baggi í rekstri þeirra. Ferðasjóður íþróttafélaga þarf að stækka og við þurfum í sameiningu að sækja á um aukin framlög í sjóðinn. Nú er kosningar til Alþingis framundan og ég skora á ykkur að nota hvert tækifæri til að minna á þetta mikilvæga sanngirnismál.

Þjónustuhlutverk KSÍ er fyrst og fremst við aðildarfélögin en því lýkur ekki þar. Þjónusta við leikmenn, þjálfara, dómara, almennt áhugafólk um knattspyrnu, fjölmiðla, opinbera aðila, einkaaðila, erlenda aðila og svo mætti áfram telja er einnig mikilvægur þáttur í starfsemi KSÍ. Stjórn KSÍ hélt fjölmarga fundi með aðildarfélögum KSÍ á starfsárinu og fékk þannig tækifæri til að kynna sér enn frekar starf aðildarfélaga og ræða fjölmörg málefni knattspyrnunnar. Ljóst er að ýmis mál brenna á aðildarfélögum og sumpart ólík eftir deildum og staðsetningu. En það var gaman og gagnlegt að kynnast þeim ótrúlega krafti og metnaði sem fyrst og fremst einkennir störf ykkar. Við verðum ávallt að bera gæfu til að starfa saman, takast á ef þarf, en sameinast um málin allri hreyfingunni til heilla. Við gerum og eigum að gera kröfur á sveitarfélög og ríkisvaldið því að okkar störf eru mikilvæg fyrir íslenskt samfélag. Við berum líka samfélagslega ábyrgð og KSÍ ákvað nýverið að tileikna næstu tvö ár baráttuni gegn einelti í samfélagi okkar í samstarfi við verkefnastjórn fjögurra ráðuneyta.

Stjórn KSÍ þakkar ykkur forystusveit íslenskrar knattspyrnu fyrir frábær störf á starfsárinu og fyrir gott samstarf. Það er fyrir ykkar miklu störf sem knattspyrnuhreyfingin á Íslandi stendur eins sterk og raun ber vitni. Við óskum ykkur gæfu á komandi keppnistímabili.

Ársþing KSÍ er vettvangur til umræðu og breytinga. Nú hittumst við enn á ný í Reykjavík en það er kominn tími á ársþingi utan Reykjavíkur. Við hittumst hér til að ræða saman formlega, en ekki síður til þess að bera saman bækur okkar með óformlegum hætti. Staða íslenskrar knattspyrnu er góð þegar ég segi 67. ársþing Knattspyrnusambands Íslands sett.