• mið. 06. feb. 2013
  • Landslið

U21 karla - Tap gegn Wales í vináttulandsleik

U21 landslið karla
ksi-u21karla

Strákarnir U21 biðu lægri hlut gegn Wales í dag í vináttulandsleik sem leikinn var í Llanelli.  Lokatölur urðu 3 - 0 fyrir heimamenn og komu öll mörkin á 10 mínútna kafla undir lok leiksins.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur en eftir 10 mínútna leik komst íslenska liðið betur inn í leikinn og jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði fyrri hálfleiksins.  Heldur var fyrri hálfleikurinn tíðindalítill því færin létu á sér standa.

Síðari hálfleikurinn var hinsvegar að mestu í eigu íslenska liðsins framan af.  Arnór Ingvi komst einn í gegn en markvörður Wales sá við honum.  Um miðbik hálfleiksins fengu svo strákarnir þrjú fín færi á tveggja mínútna kafla en náðu ekki að reka endahnútinn á sóknirnar.  Það var því gegn gangi leiksins að heimamenn komust yfir á 79. mínútu eftir hraða sókn upp miðju vallarins.  Eftir þetta tóku þeir svo öll völd á vellinum og bættu við laglegu marki þremur mínútum síðar og ráku svo smiðshöggið á góðan lokakafla á 89. mínútu leiksins.

Sérstaklega svekkjandi lokakafli, eftir ágætan síðari hálfleik hjá íslenska liðinu.  Næsta verkefni liðsins er svo 26. mars þegar liðið hefur leik í undankeppni EM 2015.  Mótherjarnir þá verða Hvíta Rússland og verður leikið ytra.