A karla - Rússar höfðu betur
Íslendingar töpuðu gegn Rússum í kvöld í vináttulandsleik sem leikinn var í Marbella á Spáni. Lokatölur urðu 2 - 0 fyrir Rússa sem leiddu í leikhléi með einu marki.
Leikurinn var frekar tilþrifalítill og gekk íslenska liðinu illa að byggja upp álitlegar sóknir gegn sterkri liðsheild Rússa. Fyrra mark þeirra kom á 43. mínútu þegar Rússar unnu boltann af íslenska liðinu framarlega á vellinum og leikmaður þeirra kom boltanum framhjá Hannesi í markinu.
Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn ágætlega og uppskáru sitt besta færi á 54. mínútu þegar Eiður Smári komst í gott færi eftir góða pressu liðsins. Hann hitti hinsvegar boltann illa og skaut framhjá marki Rússa. Þeir voru hinsvegar á skotskónum á 66. mínútu þegar leikmaður þeirra skoraði með örsnöggu táarskoti í nærhornið á íslenska markinu. Leikurinn fjaraði örlítið út eftir þetta og þrátt fyrir tilraunir íslenska liðsins náðu þeir ekki að ógna marki Rússa að verulegu ráði.
Sanngjarn sigur sterkra Rússa en þessi leikur var góður undirbúningur fyrir íslenska liðið fyrir leikinn gegn Slóvenum. Sá leikur fer fram ytra 22. mars og er í undankeppni HM 2014.