• mán. 14. jan. 2013
  • Lög og reglugerðir

Staðalsamningur KSÍ - Ábendingar vegna breytinga á samningsformi

Knattspyrnusamband Íslands
ksi-merki

Eins og áður hefur komið fram í dreifibréfi er sent var á aðildarfélög í desember 2012 hefur verið samþykkt nýtt form á staðalsamningi KSÍ.  Ekki er um verulegar efnislegar breytingar að ræða á samningsforminu en þær breytingar sem gerðar hafa verið eru til komnar vegna   samkomulags UEFA og félagsliða í Evrópu um lágmarksskilyrði leikmannasamninga sem kynnt var á síðasta ársþingi UEFA.

Mikilvægt er að aðildarfélög og leikmenn kynni sér þær breytingar sem gerðar hafa verið en nú er eingöngu heimilt að nota við samningagerð það samningsform sem tók gildi 1. janúar 2013.

Að undanskildum ákvæðum er snúa að almennri framkomu leikmanna, þátttöku í veðmálastarfsemi og notkun lyfja, eru efnislegar breytingar þær helstar að skýrar er kveðið á um með hvaða hætti tryggingar skulu vera og hvernig laun eru greidd. 

Tryggingar:                 Á samningsformi verða að koma fram öll helstu ákvæði trygginga leikmanna, gildistími tryggingar og númer tryggingaskírteinis. 

Launagreiðslur:           Á samningsformi verða að koma fram upplýsingar um launakjör, í hvaða gjaldmiðli er greitt, greiðsludagar launa (upphaf/lok mánaðar t.d.) og með hvaða hætti er greitt. (peningar, millifærsla o.s.frv.)

Mikilvægt er fyrir aðildarfélög að samningar uppfylli ofangreind skilyrði.  Að öðrum kosti er KSÍ ekki heimilt að staðfesta viðkomandi samning.

Nýtt samningsform er nú aðgengilegt á íslensku og ensku á heimasíðu KSÍ.

Eyðublöð