• mið. 09. jan. 2013
  • Landslið

A karla - Vináttulandsleikur gegn Rússum 6. febrúar

Rússland
Russian-FA

Knattspyrnusambönd Íslands og Rússlands hafa komist að samkomulagi um að karlalandslið þjóðanna leiki vináttulandsleik þann 6. febrúar næstkomandi.  Leikið verður í Marbella á Spáni.

Rússar sitja sem stendur í níunda sæti styrkleikalista FIFA og hafa byrjað undankeppni HM 2014 á besta mögulega máta, hafa fullt hús stiga eftir fjóra leiki og hafa ekki fengið á sig mark til þessa í keppninni.  Þjálfari liðsins er hinn ítalski Fabio Capello en hann tók við stjórnartaumunum í júlí á síðasta ári.

Ísland og Rússland hafa mæst fimm sinnum áður hjá A landsliði karla.  Ísland hefur unnið einu sinni, einu sinni hafa leikar endað jafnir og þrisvar sinnum hafa Rússar farið með sigur af hólmi.  Rússland var áður mikilvægasta sambandslýðveldi Sovétríkjanna og hlaut sjálfstæði árið 1991.  Ísland og Sovétríkin mættust átta sinnum á knattspyrnuvellinum og enduðu leikar þrisvar sinnum með jafntefli en Sovétríkin fóru fimm sinnum með sigur.