U19 kvenna - Ólafur Þór Guðbjörnsson áfram með liðið
Ólafur Þór Guðbjörnsson hefur verið endurráðinn landsliðsþjálfari U19 kvenna en hann hefur gert samning út næstu tvö tímabil. Ólafur er svo sannarlega enginn nýgræðingur þegar kemur að þjálfun yngri landsliða Íslands en hann byrjaði að þjálfa U17 kvenna árið 1997.
Ólafur tók svo við U19 kvenna árið 1999 og hefur stjórnað liðinu síðan, fyrsti leikurinn var 11 - 0 sigur á Eistlandi. Landslið Íslands U19 kvenna hefur leikið 93 landsleiki og hefur Ólafur stjórnað liðinu í 92 þeirra. Í þeim hefur Ísland haft sigur í 45 leikjum, 13 hefur lokið með jafntefli og í 34 skipti hafa andstæðingarnir farið með sigur. Vanda Sigurgeirsdóttir var með liðið í fyrsta leiknum sem leikinn var árið 1997 gegn Færeyingum.