• mán. 03. des. 2012
  • Fræðsla

Ítarleg tölfræðiskýrsla UEFA um kvennaknattspyrnu

UEFA - Knattspyrnusamband Evrópu
uefa-logo-biglandscape

UEFA hefur nýverið sent aðildarsamböndum sínum ítarlega tölfræðiskýrslu sem unnin var um kvennaknattspyrnu í Evrópu.  Mikil rannsóknarvinna er á bak við skýrsluna og svöruðu samböndin m.a. ítarlegum spurningalistum, auk þess sem fulltrúar UEFA heimsóttu öll knattspyrnusamböndin.  Skýrslan verður birt opinberlega eftir áramót og mun hún þá verða birt í heild sinni á vef KSÍ, en hér að neðan eru nokkrir áhugaverðir punktar um Ísland.

Tölfræði um kvennaknattspyrnu í Evrópu - Punktar

  • Fleiri skráðir iðkendur kvenna eru á Íslandi en í löndum eins og Norður-Írlandi, Wales, Skotlandi og Portúgal.  Hér er ekki átt við hlutfall, heldur heildarfjölda.
  • Hlutfall kvenna sem leika knattspyrnu á Íslandi af heildarfjölda þjóðarinnar er með því hæsta í Evrópu (0,5% viðkomandi þjóðar eða hærra – 7 lönd alls, þar á meðal öll Norðurlöndin 6).
  • Fjölgun iðkenda í kvennaflokkum milli ára er tiltölulega hæg en örugg (4% hækkun á 5 árum).
  • Þegar leikmenn yfir 19 ára og eldri eru taldir er fjöldi iðkenda í sama flokki og lönd eins og Finnland, Rússland, Pólland og Tyrkland.  Athugið að hér er ekki um hlutfall að ræða, heldur heildarfjölda fullorðinna iðkenda í kvennaflokki.
  • Sextán knattspyrnusambönd eru með einhvers konar leyfiskerfi í kvennadeildum, þar á meðal Norðurlandaþjóðirnar Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð.  Leyfiskerfið á Íslandi nær eingöngu til efstu tveggja deilda karla.
  • Þegar litið er til fjölda iðkenda kvenna 18 ára og yngri er Ísland í 16.-18. sæti í Evrópu.  Hér er átt við heildarfjölda iðkenda, ekki hlutfall.
  • Ísland er aftarlega þegar kemur að fjölda kvenkyns dómara, með fjóra starfandi (hér er átt við dómara sem dæma í deildarkeppni meistaraflokks).  Aðeins Malta, Færeyjar og Svartfjallaland eru með færri starfandi kvenkyns dómara.  Samanborið við önnur lönd er þessi staða þó hlutfallslega ekki slæm.  Holland og Grikkland eru t.d. með 6 kvendómara.  Land eins og Norður-Írland, sem er með færri kvenkyns iðkendur en Ísland, er með 10 starfandi kvendómara.
  • Algengara er að karlar þjálfi kvennalandslið í Evrópu (A og yngri lið).  Á Íslandi er hlutfallið 80% karlar / 20% konur, nokkurn veginn í meðallagi.  Þýskaland og Litháen skera sig úr hvað þetta varðar með 85-75% kvenkyns þjálfara hjá landsliðum  kvenna.
  • Aðeins 20 lönd eru með beinar sjónvarpsútsendingar frá leikjum A landsliða kvenna í sínu landi, í mörgum tilfellum er um að ræða útsendingu á vef (jafnvel á vefsíðum viðkomandi knattspyrnusambands).  Í fjórum löndum (Ísland, Frakkland, Slóvenía og San Marínó) er sýnt „reglulega“ frá kvennaknattspyrnu (landslið og félagslið).  Í fjórtán löndum er aldrei sýnt frá kvennaknattspyrnu.  Fjórðungur landa sýnir stærstu leiki í deildarkeppni í sjónvarpi.  Ekkert land nema Ísland var með beinar útsendingar frá hverri umferð í deildarkeppni á árinu.