• fim. 08. nóv. 2012
  • Landslið

Kvennalandsliðið fær viðurkenningu á baráttudegi gegn einelti

logo-VGE-stondum-saman1
logo-VGE-stondum-saman1

Kvennalandsliðið fékk í dag afhenta viðurkenningu vegna jákvæðra skilaboða gegn einelti til samfélagsins.  Viðurkenninguna fengu þær afhenta í Þjóðmenningarhúsinu í dag en þar fór fram athöfn í tilefni af baráttudegi gegn einelti sem er í dag, 8. nóvember.  Það var Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra sem afhenti viðurkenninguna.

Tilefnið er myndband sem stelpurnar í landsliðinu gerðu til að vekja fólk til umhugsunar um afleiðingar eineltis.  Myndbandið var við lag sem Katrín Ómarsdóttir samdi en lagið sungu þær Rakel Hönnudóttir og Mist Edvardsdóttir og tóku þær tvær síðarnefndu við viðurkenningunni í dag fyrir hönd kvennalandsliðsins.  Þá hélt Guðrún Inga Sívertsen, gjaldkeri KSÍ og formaður landsliðsnefndar kvenna, ávarp við athöfnina.

Hugmyndin af þessu framtaki stelpnanna kemur frá Katrínu og útskýrir kveikjuna af þessari hugmynd á eftirfarandi hátt:

"Í tilefni eineltisdagsins langar mig að nota tækifærið og útskýra hvers vegna íslenska kvennalandsliðið ákvað að gera myndband sem sett var á youtube undir nafninu „Fögnum fjölbreytileikanum“. Það hafa komið margar spurningar um hvaðan hugmyndin er komin og afhverju við ákváðum að láta okkur þetta varða.  Eftirfarandi texti útskýrir afhverju.

Hugmyndin að framtakinu kemur frá þessari færslu á facebook frá stelpu á Egilsstöðum:

"Þó ég sé feit, ljót og strákaleg hvað á ég að gera í þessu?
Ég á allavega ekki að vera lögð í einelti vegna þess að einelti lagar ekkert.
Sorry ákvað að koma þessu hingað en ef ykkur finnst þetta asnalegt þá má ykkur finnast það mér er alveg sama. :´( Plízz hættiði að leggja mig í einelti er komin með nóg. :´("

Það er sama hvaða stöðu manneskjan gegnir í samfélaginu þá hefur hún ákveðna ábyrgð—ábyrgð til að láta gott af sér leiða. Því áhrifameiri stöðu sem manneskjan gegnir því meiri samfélagsábyrgð þarf hún að sýna.

Sem partur af íslenska kvennalandsliðinu, hópur af flottum konum og fyrirmyndum á Íslandi, fannst mér við geta haft jákvæð áhrif á samfélagið með einhverjum hætti.

Allar stelpurnar tóku vel í hugmyndina og úr varð myndbandið.

Það er frábært að það skuli vera dagur til að vekja athygli á einelti, en munum líka að baráttan á sér stað alla daga. Fögnum fjölbreytileikanum alltaf."

Fyrir hönd íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta,

Katrín Ómarsdóttir

Myndbandið - Fögnum fjölbreytileikanum

Í þínum sporum