• fim. 25. okt. 2012
  • Landslið

Aron fær formlega áminningu frá landsliðsþjálfaranum Lars Lagerbäck

Knattspyrnusamband Íslands
ksi-merki

Stjórn KSÍ harmar ummæli þau sem Aron Einar Gunnarsson lét falla fyrir landsleik Albaníu og Íslands í undankeppni HM 12. október sl. Ummælin voru ósæmileg og á engan hátt í takt við það starf KSÍ að efla háttvísi sem og samskipti og skilning þjóða á milli.

Aron baðst opinberlega afsökunar og slíkt hið sama gerði Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ. Formaður Knattspyrnusambands Albaníu sýndi sanna vináttu og tók þær afsakanir góðar og gildar. Hann lýsti því jafnframt yfir að engir eftirmálar yrðu af hálfu albanska knattspyrnusambandsins vegna málsins.

Leikmenn knattspyrnulandsliða Íslands lúta agavaldi þjálfara og það sama gildir í tilfelli Arons. Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari A-liðs karla, velur landslið Íslands og fyrirliða þess. Lars hefur ákveðið að veita Aroni formlega áminningu en jafnframt fái hann annað tækifæri til að sanna sig sem fyrirliði íslenska landsliðsins. Stjórn KSÍ unir þeirri ákvörðun þjálfarans að áminna leikmanninn formlega fyrir framkomu sem ekki má endurtaka sig.