• mán. 22. okt. 2012
  • Landslið

U19 kvenna – Fimm marka sigur á Moldavíu

byrjunarlið Moldavía
U19-kvenna-byrjunarlid-Moldavia

Stelpurnar í U19 lögðu stöllur sínar frá Moldavíu örugglega í dag í undankeppni EM en þetta var annar leikur liðsins í riðlinum sem leikinn er í Danmörku.  Lokatölur urðu 5 – 0 fyrir Ísland en þær leiddu með þremur mörkum í leikhléi.

Tómas Þóroddsson sendi síðunni eftirfarandi umfjöllun um leikinn:

"Stelpunar í u-19 ára landsliði Íslands léku sinn annan leik í undankeppni evrópumótsins í dag er þær tóku á móti Moldovíu. Stelpunar gerðu sér lítið fyrir og unnu leikinn 0-5 með tveim mörkum frá Elín Mettu og einu frá Sigríði Láru, Telmu Þrastar og Guðmundu Brynju. Áður höfðu íslendingar unnið Slóvaka 4-0 og eru þær því komnar áfram í Evrópukeppninni. Síðasti leikur liðsins er svo gegn Dönum sem hafa líka unnið báða sína leiki, en leikið er í Esbjerg í Danmörku.

Ólafur Þór Guðbjörnsson þjálfari landsliðsins gerði 5 breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik. En byrjunarliðið var eftirfarandi í 4-4-2: Halla Margrét Hinnriksdóttir, Berglind Rós Ágústdóttir, Elísa Elvarsdóttir, Anna María Baldursdóttir, Margrét Björg Ástvaldsdóttir, Telma Þrastardóttir, Sigríður Lára Garðarsdóttir, Lára Kristín Pedersen, Svava Rós Guðmundsdóttir, Elín Metta Jensen og Aldís Kara Lúðvíksdóttir.

Íslensku stelpunar byrjuðu leiki með góðri sókn, er Sísi Lára átti sendingu inn á Telmu, hún gaf boltann út í teig og Aldís Kara átti ágætis skot sem var varið. Greinilegt strax í byrjun hvert stefndi og fyrsta markið kom á 10 mínútu. Þá átti Telma Þrastar góða sendingu inn á Elínu Mettu sem lék á markmanninn og skoraði í autt markið, virkilega snyrtilegt mark og staðan orðin 0-1.

Tveimur mínútum seinna gaf Berglind góðan bolta upp í horn á Telmu sem setti boltann fyrir á Elín Mettu, en skot hennar fór framhjá. Mínútu seinna átti Aldís Kara skot framhjá. Á 17. Mínútu tók Margrét aukaspyrnu og náði góðum bolta fyrir á Sísí Láru sem skallaði rétt yfir. Tveimur mínútum seinna stakk Svava varnarmenn Moldava af, kom með góða sendingu fyrir, en Telma var óheppinn með skot sitt sem fór framhjá.

Þegar 25 mínútur voru liðnar af leiknum tók Elín Metta horn, hitti á kollinn á Sísí Láru sem skallaði boltann af krafti inn og staðan orðin 0-2. Tveimur mínútum síðar spiluðu miðjumenn Íslands sig frábærlega í gegn sem varð til þess að Telma Þrastar slapp ein í gegn, hún lék á markamanninn gaf út á Elín Mettu sem skorið auðveldlega. Virkilega fallegt mark, vel af því staðið og staðan orðin 0-3.

Á 30. mínútu átti Aldís Kara ágætis skot sem var varið. Fátt markvert gerðist svo fram að leikhléi, en staðan í hálfleik 0-3 og minna mátti það nú ekki vera miðað við yfirburðina úti á velli.

Þegar þrjár mínútur voru liðnar af seinni hálfleik opnaði Lára Kristín vörn Moldava upp á gátt með góðri sendingu inn á Telmu, hún gaf góðan bolta fyrir á Aldísi Köru sem var óheppinn með skot sitt sem fór rétt framhjá. Á 54. mínútu leiksins kom frábær sókn hjá íslenska liðinu, sem endaði með hörku skoti í slá frá Elínu Mettu. Þegar klukkutími var liðinn af leiknum var gerð tvöföld skipting. Halla Hinriksdóttir fór út fyrir Helenu Jónsdóttir og Sísí Lára fór út fyrir Rakel Ýr Einarsdóttir.

Á 74. mínútu kom 4. mark leiksins. Þá gaf Elín Metta flottan boltan inn á Telmu Þrastar sem hamraði knettinum í stöngina og inn. Mjög fallegt mark. Í kjölfarið kom Guðmunda Brynja Óladóttir inn fyrir Elínu Mettu Jensen.

Tveimur mínútum seinna átti Rakel Ýr fína sendingu inn á Aldísi Köru sem tók boltann og lék á eina sem við það feldi hana innan teigs og því dæmt víti. Gumma tók fast víti sem markmaðurinn réði ekki við og kom Íslandi í 0-5. Síðasta færi leiksins átti svo Gumma, en markmaður Moldovíu varði aukaspyrnu hennar.

Mjög svo sanngjarn sigur Íslands því staðreynd þar sem Ísland átti 24 marktilraunir á móti tveim frá andstæðingunum, sem voru bæði skot langt utan af velli. Því er sæti tryggt í milliriðli evrópumótsins og aðeins lokaleikur riðilsins eftir, sem er úrslitaleikur við Dani. En sá leikur fer fram á Blue Water Arena á fimmtudag kl 12.00 að íslenskum tíma.