• lau. 20. okt. 2012
  • Landslið

Stórt skref stigið í átt til Svíþjóðar

UEFA EM A-landsliða kvenna
uefa-weuro-2013b-small

Íslenska kvennalandsliðið steig í dag stórt skref í átt að sæti í lokakeppni EM 2013 í Svíþjóð næsta sumar.  Skrefið var stigið með því að leggja Úkraínu 3-2 í Sevastopol í fyrri umspilsleik liðanna.  Seinni leikurinn fer fram á Laugardalsvelli fimmtudaginn 25. október og eru allir sem vettlingi geta valdið skyldugir til að mæta.

Íslenska liðið virðist hafa komið heimamönnum á óvart í byrjun leiks því Katrín Ómarsdóttir skoraði eftir aðeins fimm mínútur og Hólmfríður Magnúsdóttir kom Íslandi tveimur mörkum yfir eftir 25 mínútna leik.  Úkraína náði smám saman að vinna sig inn í leikinn og náði að minnka muninn á 39. mínútu.

Síðari hálfleikur var afar fjörugur, eins og sá fyrri, og úkraínska liðið hélt áfram mikilli pressu að íslenska markinu, sem lauk með jöfnunarmarki á 51. mínútu.  Baráttan var áfram í fyrirrúmi hjá okkar stelpum, sem náðu ró á sinn leik og Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði á 64. mínútu.  Þetta reyndist vera sigurmark leiksins og því er ljóst að EM-sætið er innan seilingar.

Til þess að draumurinn verði að veruleika og að Ísland komist á EM í annað sinn í röð þarf íslenska liðið þó að leika vel í síðari leiknum. Úkraína er með sterkt lið sem ætlar sér ekkert annað en sigur í Laugardalnum á fimmtudag.  Stelpurnar þurfa stuðning allra sem eiga þess nokkurn kost að mæta.  Við ætlum á EM, öll saman.  Miðasalan er í fullum gangi á http://www.midi.is/. Allir á völlinn!