• lau. 20. okt. 2012
  • Landslið

Frábær fjögurra marka sigur hjá U19 kvenna

UEFA EM U19 kvenna
WU19_Portrait_Master_White_cmyk-01

U19 landslið kvenna hóf undankeppni EM með glæsibrag í fyrsta leik gegn Slóvakíu, en riðillinn fer fram í Danmörku.  Fjögur mörk í síðari hálfleik tryggðu íslenskan sigur og íslenska liðið hefur þar með stimplað sig rækilega inn.

Fyrri hálfleikur var markalaus og jafnræði með liðunum.  Bæði lið léku varfærnislega og tóku enga áhættu, en íslensku stelpurnar voru mun grimmari í tæklingum.  Þessi barátta skilaði sér í frábærum seinni hálfleik, þar sem Ísland tók öll völd og skoraði fjögur mörk.

Elín Metta Jensen skoraði fyrsta og síðasta markið, en á milli marka Elínar skoruðu Sigríður Lára Garðarsdóttir og Svava Guðmundsdóttir, sem kom inn á sem varamaður í leiknum.

Hér að neðan má lesa umfjöllun sem Tómas Þóroddsson sendi okkur um leikinn.

Stelpunar í U-19 ára landsliði Íslands í knattspyrnu léku í gær sinn fyrsta leik í undankeppni Evrópumótsins.  Leikið var á Guldager vellinum í Esbjerg og óhætt að segja að völlurinn hafi verið mjög þungur eftir mikla rigningu síðustu daga.

Byrjunarlið Íslands var eftirfarandi: Halla Margrét Hinriksdóttir, Lára Einarsdóttir, Ingunn Haraldsdóttir, Anna María Baldursdóttir, Guðrún Arnarsdóttir, Sigríður Lára Garðarsdóttir, Lára Kristín Pedersen, Hildur Antonsdóttir, Guðmunda Brynja Óladóttir, Elín Metta Jensen og Aldís Kara Lúðvíksdóttir.

Íslendingar byrjuðu betur þó svo að Slóvakar hafi átt fyrsta skotið í leiknum. Strax í byrjun var Gumma næstum sloppin í gegn, en markmaður Slóvaka kom vel út á móti.  Hildur Antons og Elín Metta spiluðu sig svo vel í gegn í næstu sókn, en Slóvakar björguðu á síðustu stundu.  Markmaður Slóvaka bjargaði svo vel skoti frá Elín Mettu eftir sendingu frá Sísí Láru.

Á 15. mínútu átti svo Hildur Antons skot framhjá og mínútu seinna fór skot Guðrúnar Arnardóttir sömu leið. Eftir þessa ágætis byrjun þar sem íslendingar voru betri, án þess þó að eiga dauðafæri, róaðist leikurinn.  Sísí Lára átti svo tvo ágætis skot áður en Slóvakar létu finna fyrir sér undir lok hálfleiksins.  Á 43. mínútu áttu Slóvakar skot rétt framhjá.  Mínútu síðar bjargaði Halla í markinu frábærlega frá sóknarmanni andstæðingana.  Þriðja færi þeirra kom svo á lokamínútunni, en þá varði Halla nokkuð auðveldlega. Öll þessi færi þeirra komu eftir föst leikatriði.

Fyrsta færi seinni hálfleiks fékk Gumma, eftir sendingu frá Sísí Láru lék Gumma á eina en að lokum var bjargað í horn. Hinumegin á vellinum bjargaði Anna María mjög vel áður en hætta skapaðist. Vendipunktur leiksins var á 55. mínútu er Halla í markinu bjargaði frábærlega með góðu úthlaupi er sóknarmaður Slóvaka var að sleppa einn í gegn.  Eftir þetta tóku Íslendingar leikinn yfir.  Í næstu sókn spiluðu Gumma og Aldís Kara sig vel í gegnum vörn Slóvaka án þess þó að ná góðu skoti.

Á 64. mínútu átti Lára Kristín frábæra sendingu inn á Elínu Mettu, hún lék á markmanninn og skoraði auðveldlega og staðan orðin 1-0.  Mjög vel gert hjá þeim báðum. Í kjölfarið kom Telma Þrastardóttir inn fyrir Aldísi Köru, við það fór Gumma á vinstri kant og Elín Metta fór upp á topp.  Mínútu seinna átti Gumma hörkuskot úr aukaspyrnu sem var varið.

Á 67. mínútu lék Elín Metta á mótherja og kom með góða sendingu fyrir. Slóvakar áttu erfit með að hreinsa frá og þvaga myndaðist áður en boltinn barst út til Sísí Láru sem púttaði boltanum í netið frá vítateig.  Snyrtileg afgreiðsla eftir góðan undirbúning.  Stuttu seinna átti Elín Metta gott skot sem var bjargað í horn.

Á 79. mínútu kom Svava inn fyrir Hildi Antons, Svava fór á vinstri, Gumma upp á topp og Elín Metta fór þá fremst á miðjuna.  Mínútu eftir skiptinguna átti Lára Einars sendingu frá hægri og inn á teig var Svava mætti og smellti boltanum í netið.  Flott sending og ekki leiðinlegt hjá Svövu að skora úr sinni fyrstu snertingu.  Þremur mínútum seinna tók Telma Þrastar boltann niður, fann hlaup hjá Elín Mettu sem fékk boltann og framlengdi strax yfir á vinstri á Gummu sem var þá komin ein í gegn.  En Gumma setti boltann framhjá úr góðu færi, en engu að síður mjög góð sókn. Á 86. mínútu kom Elísa Elvarsdóttir inn fyrir Láru Einars.  Elísa að spila sinn fyrsta leik eins og Halla Margrét í markinu og óskum við þeim til hamingju með þennan áfanga.
Á 88. mínútu sendi Sísí Lára boltann inn á Gummu, hún kom strax með góða sendingu fyrir markið á Elín Mettu sem kláraði færið sitt vel.  Virkilega flott sókn, þar sem sendingar og hlaup smullu saman.  Mínútu seinna slapp Gumma ein í gegn, en markmaðurinn varði vel frá hanni.  Síðasta færi leiksins fékk svo Elín Metta, er skot úr aukaspyrnu var bjargað í horn.

Mjög góður og sannfærandi sigur íslenska liðsins því staðreynd eftir smá bras í fyrri hálfleik. Nokkrar mjög góðar sóknir voru í seinni hálfleik, eftir frekar einstaklingsmiðaðan fyrri hálfleik. Næsti leikur liðsins er gegn Moldovíu og verður hann leikinn á mánudag kl 12.00 á íslenskum tíma.  

Leikskýrslan á uefa.com