Svissneskur sigur í Laugardalnum
Svisslendingar höfðu betur gegn Íslendingum í kvöld á Laugardalsvelli þegar liðin mættust í undankeppni HM. Lokatölur urðu 0 - 2 fyrir gestina eftir að staðan hafði verið markalaus í leikhléi.
Leikurinn var fjörugur og ágætlega leikinn af báðum liðum, gestirnir voru meira með boltann í fyrri hálfleiknum en íslenska liðið varðist skynsamlega og beitti skyndisóknum. Ekki var mikið um opin færi í fyrri hálfleiknum. Gylfi Sigurðsson átti gott skot úr aukaspyrnu sem markmaður Sviss varði vel og Alfreð Finnbogason átti gott skot undir lok fyrri hálfleiks sem markmaðurinn varði einnig vel.
Seinni hálfleikurinn var mjög fjörugur og fengu Íslendingar nokkur mjög góð færi sem ekki nýttust. Birkir Bjarnason var nokkrum sinnum aðgangsharður og átti t.a.m. skot í þverslá á 61. mínútu og markvörður Sviss varði glæsilega frá Alfreð Finnbogasyni á 77. mínútu. Færin urðu fleiri en gestirnir ógnuðu líka marki Íslendinga og komust yfir á 62. mínútu eftir mikinn darraðadans í teignum sem endaði með laglegu marki. Þeir bættu svo við marki á 79. mínútu og fögnuðu svo sigrinum vel í leikslok.
Engu að síður prýðilega leikinn leikur af hálfu íslenska liðsins en gestirnir voru nýtnari á marktækifærin og því fór sem fór. Sviss er nú í efsta sæti riðilsins með 10 stig og Noregur kemur næst, eftir sigur á Kýpur í kvöld, með 9 stig. Ísland er svo í þriðja sæti með sex stig, eins og Albanía sem lagði Slóveníu í kvöld.
Næsti leikur íslenska liðsins í riðlinum verður gegn Slóveníu ytra, 22. mars. Þá er ljóst að þrír leikmenn verða í leikbanni, þeir Rúrik Gíslason, Grétar Rafn Steinsson og Kári Árnason, en þeir fengu allir áminningu í leiknum í kvöld. Næsti leikur A landsliðs karla verður hinsvegar vináttulandsleikur gegn Andorra, 14. nóvember næstkomandi.