Pálmi Rafn og Rúnar Már koma inn í A-landsliðið
Lars Lagerbäck, þjálfari A landsliðs karla, hefur valið tvo leikmenn í landsliðshópinn fyrir leikinn við Sviss á þriðjudag. Rúnar Már Sigurjónsson úr Val og Pálmi Rafn Pálmason, sem koma í stað Arons Einars Gunnarssonar, sem er í leikbanni, og Helga Vals Daníelssonar, sem hefur átt við veikindi að stríða.
Aron Einar, sem er fyrirliði íslenska liðsins, fékk sitt annað gula spjald í keppninni í hörkuleiknum við Albani síðastliðinn föstudag og tekur því út eins leiks bann gegn Sviss. Helgi Valur kom til móts við liðið í Albaníu, en varð fljótlega veikur og náði ekki að hrista þau veikindi af sér og getur því ekki verið með á þriðjudaginn.
Pálmi Rafn Pálmason, sem leikur með Lilleström í Noregi, hefur leikið A-18 landsleiki. Rúnar Már hefur hins vegar ekki leikið A-landsleik, en á að baki leiki með U21 landsliðinu í nýliðinni undankeppni EM, sem og leiki með U19 liði Íslands.
Leikurinn gegn Sviss er á Laugardalsvelli á þriðjudag og hefst kl. 18:30.