• fös. 12. okt. 2012
  • Landslið

Frækinn sigur í Tirana

HM 2014 í Brasilíu
fifa-wc-brazil-2014

Íslendingar unnu sigur á Albönum í undankeppni HM í kvöld en leikið var í Tirana.  Lokatölur urðu 1 - 2 eftir að hvort lið skoraði eitt mark í fyrri hálfleiknum.  Erfiðar aðstæður settu mark sitt á leikinn og var óvíst um tíma hvort hægt væri að klára leikinn vegna vallaraðstæðna.

Mikið rigndi í Tirana í dag og hélt sú rigning áfram á meðan leik stóð.  Aðstæður voru því erfiðar og þyngdist völlurinn sífellt sem lengur leið á leikinn.  Það var Birkir Bjarnason sem skoraði fyrsta mark leiksins á 19. mínútu eftir langt innkast Arons Einars Gunnarssonar.  Alfreð Finnbogason skallað innkast Arons lengra og Kári Árnason bætti um betur áður en Birkir batt lokahnútinn á verkið, í annarri tilraun.  Heimamenn sóttu í sig votviðrið og jöfnuðu metin tíu mínútum síðar.  Þannig stóðu leikar þegar finnski dómarinn flautaði til leikhlés.

Það voru ekki bara leikmenn og þjálfarar sem notuðu leikhléð til þess að ráða ráðum sínum því að dómari leiksins og eftirllitsmaður UEFA nýttu það á sama hátt.  Vallar- og veðuraðstæður voru þannig að óvíst var hvort hægt yrði að ljúka leiknum.  Varð úr að leikhléð var lengt um 20 mínútur og nýttu vallarstarfsmenn tímann til að skafa vætuna af vellinum.  Það var svo um 35 mínútum eftir að flautað var til leikhlés að seinni hálfleikurinn var flautaður á.

Seinni hálfleikur bar öll merki slæmra vallaraðstæðna en leikmenn beggja þjóða gáfu ekkert eftir og var baráttan í fyrirrúmi.  Heimamenn voru líklegri án þess að fá mörg opin færi.  Það var svo á 81. mínútu að brotið var á Gylfa Þór Sigurðssyni rétt fyrir utan vítateig.  Gylfi tók aukaspyrnuna sjálfur sem small í netinu eftir viðkomu í stönginni.  Stórkostlegt mark og strákarnir vörðust gríðarlega vel sem eftir lifði leiks og sóknarlotur Albana, eftir þetta, voru hættulitlar.

Strákarnir fögnuðu svo innlega þegar flautað var til leiksloka, frækinn sigur í höfn hjá Íslendingum og sex stig í sarpinn eftir þrjá leiki.  Liðið sýndi gríðarlegan vilja við erfiðar aðstæður og uppskar eftir því.  Það kostaði þó sitt, fyrirliðinn Aron Einar fékk áminningu í leiknum og verður í leikbanni gegn Sviss á þrðjudaginn.  Það er einmitt næsta verkefni liðsins en sá leikur fer fram á Laugardalsvelli, 16. október kl. 18:30. 

Miðasala á leikinn er i fullum gangi á http://www.midi.is/ og mun íslenska liðinu svo sannarlega ekki veita af öflugum stuðningi í þeim leik enda mætast þarna þjóðirnar í efstu tveimur sætum riðilsins.  Sviss og Noregur gerðu jafntefli í kvöld, 1 - 1 og Slóvenía lagði Kýpur, 2 - 1.  Riðillinn virðist hnífjafn og leikir riðilsins jafnir og spennandi.

Við hvetjum alla til að fjölmenna á Laugardalsvöllinn á þriðjudaginn, strákarnir þurfa á öflugum stuðningi að halda.

Staðan í riðlinum